143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:31]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa talað í þessari umræðu um tillögu utanríkisráðherra. Ég get ekki sagt að það sé með neinni gleði í hjarta sem ég tek til máls um hana, mér finnst hún eiginlega með svo miklum ólíkindum í ljósi sögunnar, þess sem hefur gerst hér á síðasta ári og þess sem sagt var í kosningabaráttunni og sem stóð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, ekki síst í ljósi þeirra loforða sem nánast allir eða að minnsta kosti allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins höfðu uppi í kosningabaráttunni um ESB og áframhald aðildarviðræðna.

Ég hef oft haldið því fram, bæði í ræðu og riti, að Evrópusambandið sé ekki fullkomið. Það er ekki fullkomið frekar en landbúnaðarstefna Íslands. Það er ekki fullkomið frekar en sjávarútvegsstefnan okkar. Það er ekkert fullkomið í þessum heimi og örugglega allra síst Evrópusambandið. En það sem fær mig til að verða frekar svekktan yfir þessari tillögu er að á síðasta kjörtímabili fylgdist maður með mjög öflugri stjórnarandstöðu sem sveifst einskis til að þæfa mál, koma fram af mikilli óbilgirni og tefja mál. Eitt af því sem fékk mig til að fara í stjórnmál var vilji til að breyta þessu, ekki síst í ljósi þess að hér var gerð rannsóknarskýrsla Alþingis sem kostaði ríkissjóð 700–800 milljónir. Það sem fékk mig til að fara í stjórnmál öðru fremur var að mig langaði til að hjálpa til við að breyta stjórnmálamenningunni á Íslandi, að við ynnum í sameiningu að því að byggja upp gott og heilbrigt samfélag. Mér sýnist enginn hafa farið eftir þessari skýrslu og hún bara týnd og tröllum gefin. Mér finnst það eiginlega um allar skýrslur sem eru settar af stað á Íslandi, enginn fer eftir þeim. Skýrsla Hagfræðistofnunar var sett sem ein af forsendunum hvað varðar ESB og átti að kynna fyrir þjóðinni og þingi og í framhaldi af því átti svo að taka ákvörðun um áframhald. Gott og vel.

Ég talaði um þessa skýrslu daginn eftir að tillagan kom fram frá utanríkisráðherra. Ég velti fyrir mér í hvaða leikriti ég væri staddur. Menn tala stundum um það í ræðustól að hér sé verið að setja eitthvert leikrit í gang og það kom fram í gær hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að hér væri stjórnarandstaðan að setja á svið leikrit. Ég velti fyrir mér hver leikstjórinn sé í þessu leikriti. Hver er upphafsmaðurinn að því? Til hvers erum við hérna eiginlega? Þetta er spurning sem ég er alltaf að velta fyrir mér.

Ég lít þannig á stjórnmál að við séum að vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Allar þær ákvarðanir sem við tökum eiga að miðast að því að bæta hag og hagsæld þjóðarinnar. Nú hef ég ekki hugmynd um það frekar en nokkur einasti maður á Alþingi hvort það sé til hagsbóta fyrir okkur að fara í ESB. Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég vil samt trúa að það sé til hagsbóta, ekki síst í ljósi sögu Íslands, ekki síst í ljósi sögu gjaldmiðils okkar, þess hvernig staðan er á okkur núna og hvernig landinu hefur verið stjórnað alla tíð. Ég trúi því að með því að ganga í Evrópusambandið öðlumst við agaðri vinnubrögð. Ég hef hitt fólk sem hefur þurft að vinna að því að sækja um IPA-styrkina svonefndu og það sagði að það væri með ólíkindum hversu fagleg vinnubrögð eru lögð til grundvallar til að fá þessa IPA-styrki.

Ég hef hitt fólk í kjördæminu sem hristir hausinn yfir þessari ákvörðun. Í mínu kjördæmi eru stjórnarflokkarnir gríðarlega sterkir, eiga átta þingmenn sem segir okkur að sveitarstjórnarfólk er líka mikið í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, og það fólk hristir hausinn, skilur ekki þessa ákvörðun og er felmtri segið yfir henni. Þetta kom öllum á óvart. Menn tala um svik og annað þar fram eftir götunum, ég er ekkert hissa á því og það sést ekki síst úti á Austurvelli trekk í trekk. 80% þjóðarinnar í skoðanakönnunum vilja klára þetta.

Ég hef sagt það í ræðu áður að eitt það sorglegasta sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili var landsdómur og hversu óskaplega það skemmdi móralinn í samfélaginu. Öll umræðan varð heiftúðug og verri fyrir vikið. Mér finnst þetta akkúrat vera það sama, að koma með þetta mál inn í þingið á þessum tímapunkti finnst mér ótrúlega ótaktískt og alger óþarfi.

Ég sagði í kosningabaráttunni þegar ég var að ferðast um og tala við fólk að ég væri svo hrifinn af þessum kosningaloforðum Framsóknarflokksins að ef ég hefði ekki verið að brölta sjálfur í stjórnmálum hefði ég sennilega kosið flokkinn með allar þessar skuldaniðurfellingar og verðtrygginguna burt. Svo var sá vinkill að leyfa þjóðinni að ráða því hvort halda ætti áfram með þessar aðildarviðræður. Það var gríðarlega stór faktor í þessu öllu saman. Það kom líka alltaf skýrt fram að báðir þessir flokkar teldu hag þjóðarinnar betur borgið utan Evrópusambandsins. Ég hef aldrei fengið neina skýringu á því hvers vegna. Bara af því bara, af því að við fáum engar undanþágur, við fáum engar sérlausnir. Það var verið að tala um heiðarleika hér áðan í ræðustól og það hefði aldeilis verið heiðarlegt af þessum tveimur flokkum sem vilja ekki aðild að Evrópusambandinu að taka það skýrt fram í sinni kosningabaráttu að þeir ætluðu að slíta þessum viðræðum innan eins árs. Það hefði verið heiðarlegra og þá hefðu allir vitað að þetta mundi gerast. Nei, þeir gerðu það ekki vegna þess að þeir vissu að þá hefðu þeir aldrei orðið í meiri hluta á þingi. Það er alveg ljóst. Það segja manni viðbrögðin úti í þjóðfélaginu út af þessari ótrúlegu tillögu sem er lögð hérna fram.

Forsagan er líka rakin í þessari tillögu, hvers vegna þetta fór af stað og var gert svona og hinsegin. Það má örugglega taka undir að vissulega hefði verið fínt hjá flokkunum í síðustu ríkisstjórn að fara með þetta í þjóðaratkvæði en það var ekki gert. Við breytum því ekki hér eftir. En þó var alltaf ljóst að niðurstaða þessa máls átti að koma fyrir þjóðina og hún átti að ákveða hvort hún vildi fara í Evrópusambandið eða ekki.

Ég hef líka velt fyrir mér hvað hafi breyst. Ég hef lesið upp úr bloggi hæstv. núverandi forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, þar sem hann talar um að sjálfstæðismenn hafi ætíð sett sjávarútvegsmálin fyrir sig. Þau eru helsti ásteytingarsteinninn og ástæða þess að fara ekki í Evrópusambandið vegna þess að sjálfstæðismenn telja að þeir missi yfirráðin yfir sjávarútvegsauðlindinni. Það hefur meira að segja komið fram á landsfundi þar sem Sigurður Kári Kristjánsson sagði beint út að ef Sjálfstæðisflokkurinn missti yfirráð sín yfir sjávarútvegsauðlindinni vildi hann ekki fara í Evrópusambandið. Í þessu bloggi talaði núverandi hæstv. forseti, Einar K. Guðfinnsson, meðal annars um að sjálfstæðismenn hafi ranglega notað sjávarútvegshagsmuni til að stífla þessa umræðu og skemma hana og þeir verði að hafa betri rök, slaka út fordómum og taka upp málefnalegri umræðu. Það er nákvæmlega það sem við erum að biðja um og það sem þjóðin biður um. Hann segir líka að allir flokkar, alveg sama hvaða flokkur er, verði að skoða inngöngu í Evrópusambandið án fyrir fram gefinnar niðurstöðu og án hleypidóma. Sú skylda hvílir á stjórnmálamönnum að skoða af fullri ábyrgð allar leiðir sem hugsanlega gætu bætt velsæld þjóðarinnar. Það gæti komið í ljós ef við kláruðum viðræðurnar að við ættum enga samleið með ESB. En við vitum það ekki. Við höfum ekki hugmynd um það. Menn gefa sér fyrir fram einhverja niðurstöðu. Þessi hagfræðiskýrsla er ágæt en það var líka gefin út skýrsla undir stjórn Björns Bjarnasonar 2007 sem segir nákvæmlega það sama. Það er endalaust verið að gefa út einhverjar skýrslur um þessi mál, það fer bara enginn eftir þeim. Það kemur vel fram í þessari skýrslu sem er skrifuð af valinkunnu fólki úr öllum flokkum að við getum ekki fengið sérlausnir eða undanþágur en það er bara samið áfram og svo eru einar tíu síður í þessari skýrslu sem sýna fram á undanþágur og sérlausnir. Ef eitthvert land í Evrópu hefur sérstöðu erum það við, lengst úti í ballarhafi. Það er bara þannig.

Allar þjóðir sem hafa viljað það, t.d. Finnar og Svíar, hafa fengið undanþágu hvað varðar landbúnaðinn. Ég held að landbúnaðurinn á Íslandi mundi njóta mjög góðs af því að fara í Evrópusambandið. Nú þegar getum við selt 4–5 þús. tonn af skyri á ári til Evrópusambandsins ef við hefðum til þess leyfi. Íslenskir ostar, kókómjólk og ég veit ekki hvað og hvað hefur hlotið alþjóðleg verðlaun. Ég hef miklu meiri trú á landbúnaði en bændur þessa lands og ég hef miklu meiri trú á sjávarútveginum en útvegsmennirnir vegna þess að ég held að möguleikarnir innan Evrópusambandsins séu gríðarlegir.