143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:43]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa spurningu. Já, það hefur ekki farið fram hjá neinum að áherslur okkar eru að klára þessar viðræður vegna þess að við teljum það langsigurstranglegustu leiðina fyrir Ísland, ekki síst vegna þess að við virðumst vera með gjaldmiðil sem er ekki nógu góður og hefur aldrei reynst okkur nógu vel.

Hvað varðar aðra valkosti verð ég að viðurkenna að ég er ekkert rosalega bjartsýnn á það hvernig við ættum að takast á við þetta. Einhvern veginn finnst mér að það væri þá algjört lykilatriði að finna aðra leið að upptöku annars gjaldmiðils. Það þyrftum við að gera í fullkominni sátt og samvinnu.

Ég hef reyndar líka sagt í ræðustól að við höfum lagt á það mikla áherslu í Bjartri framtíð að við eigum að boða til mikils samráðs við alla hagsmunaaðila í þessu landi, Alþingi, sveitarstjórnir, öll hagsmunasamtök atvinnulífsins og verkalýðsforustuna, til að reyna að komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig við getum til framtíðar byggt upp Ísland svo það verði samkeppnishæft gagnvart öðrum löndum. Ég á ofboðslega erfitt með að átta mig á hvernig við getum gert það, en við gerum það með víðtæku samráði.

Ég hef ekki séð þessa ríkisstjórn núna koma fram með neina áætlun um það hvernig á að gera þetta. Ég held að við gerum það ekki með því að smíða áfram einhverjar áburðarverksmiðjur eða álver.

Þetta er mjög stór spurning og erfitt fyrir nýjan þingmann að svara henni. Ég er með þá útópísku hugmynd að við getum öll starfað saman í sátt og samlyndi. Hún er kannski útópísk vegna þess að þetta virðist ekki geta verið svoleiðis á Íslandi. Hérna virðast svo ótrúlega ósamstæð öfl sem geta ekki náð saman. Það sést best á því hvernig þetta er núna. Ég átti von á því að það yrði miklu betra samstarf milli flokka á þessu nýja þingi, en sú er aldeilis ekki raunin.