143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans um málið. Það er tvennt sem ég vildi bregðast við og velta upp við hv. þingmann.

Í fyrsta lagi notaði hann nokkurn tíma af ræðu sinni til að ræða um hugsanlegar sérlausnir eða undanþágur, einkum og sér í lagi hvað varðar sjávarútvegsmál, en auðvitað geta þær átt við um fleiri málaflokka að sjálfsögðu, en segir að ekki séu miklar líkur á því að það geti náðst og sé ólíklegt. Spurning mín er þessi: Er nokkur leið til að komast að því með óyggjandi hætti nema að ljúka aðildarviðræðunum og sjá hvað er á blaðinu? Við getum öll verið með vangaveltur um hvað sé líklegt og hvað sé ólíklegt á grundvelli þess sem hefur tíðkast áður eða ekki tíðkast. Er nokkur leið til þess að fá úr því skorið á óyggjandi hátt hvaða sérlausnir mundu fást og hvernig þær yrðu, varanlegar undanþágur eða tímabundnar, nema að fá endanlegan samning á borðið?

Hin spurningin sem ég velti upp við hv. þingmann er um hvort hann telji ekki mikilvægt, meðal annars í ljósi þeirra mjög svo afdráttarlausu kosningaloforða sem Framsóknarflokkurinn gaf í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar, að þjóðin eigi aðkomu að þeirri ákvörðun sem tekin verður í málinu.

Þetta eru þær tvær spurningar sem ég vildi beina til hv. þingmanns.