143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir spurningarnar.

Hann spyr hvort nokkur önnur leið sé til að komast að því hvort varanlegar undanþágur sé í boði en að ljúka aðildarsamningi. Líklega er það nú ekki hægt. Alla vega hefur Evrópusambandið ekki viljað gefa nein svör um það af eða á. Það eru engar könnunarviðræður í boði, heldur þarf að fara í gegnum allt aðildarferlið til að fá þau svör. Það er reyndar mjög sorglegt að fyrri ríkisstjórn sem hafði áhuga á aðild skyldi ekki nota tímann til að leiða þetta í ljós og að eftir fjögur ár skuli ekki vera búið að svara þeirri mikilvægu spurningu. Ég man eftir því, og eflaust man hv. þingmaður eftir því líka, að utanríkisráðherra sagðist ætla að leggja áherslu á að láta á þetta reyna snemma í viðræðunum, einmitt þessa hluti svo tíma yrði ekki varið til einskis við að semja um einhverja hluti sem kannski væri ekki tilefni til að semja um.

Ég ræddi líka um það í ræðu minni að jafnvel þótt einhverjar undanþágur yrðu veittar og þær væru kallaðar varanlegar sé sambandið í stöðugri þróun. Og það gæti gerst yfir lengri tíma, mörg ár, að þótt við hefðum fengið fram undanþágur í aðildarsamningi mundum við á einhverjum tímapunkti vegna annarra hagsmuna eða breytinga í sambandinu eða breytinga á okkar högum ákveðið að láta þær eftir og þá væru þær farnar.

Telur hv. þingmaður að það skipti þá sem eru andvígir aðild einhverju máli hvort varanlegar undanþágur séu í boði eða ekki? Meiri hluti þjóðarinnar er andvígur aðild. Er það vegna þess að undanþágur eru ekki í boði? Eða eruð þið bara almennt á móti aðild?