143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann var málefnalegur að vanda en ég furða mig svolítið á seinustu orðunum sem féllu um að aðkoma þjóðarinnar að málinu væri ekki útilokuð. Ég fæ ekki betur séð en að svo sé miðað við þá þingsályktunartillögu sem við erum að ræða hérna, en hún varðar það að slíta viðræðunum, ekki gera bara hlé á þeim. Það er munur þar á þótt smár minni hluti hv. þingmanna virðist vera á öðrum meiði. Það virðist vera sameiginlegur skilningur þeirra sem best til þekkja.

Sömuleiðis velti ég sérstaklega fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki áhuga á því að sjá hvernig t.d. sjávarútvegsumræður og landbúnaðarumræður við ESB mundu þróast. Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að ef við gerum hlé getum við kannski tekið upp umræðurnar á nýjan leik á næsta kjörtímabili eða næst þegar kemur ríkisstjórn sem væri hugsanlega reiðubúin að halda áfram ferlinu og treysti sér til þess að beita faglegum vinnubrögðum í því efni.

Nú hefur einmitt komið fram á bls. 137 í Skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) og um þróun mála innan sambandsins þar sem er m.a. upptalning á þeim þáttum sem mestu skipta í hinni svokölluðu nýju sjávarútvegsstefnu sem Evrópusambandið er að velta fyrir sér. Þar kemur til dæmis fram í lið 7, með leyfi forseta:

„Aukin áhersla á svæðisbundna stjórnun og aukna ákvarðanatöku í héraði.“

Í 8. lið, með leyfi forseta:

„Framseljanlegar aflaheimildir (e. transferable fishing concessions).“

Greinilega er einhver þróun í gangi í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, kannski ekki skrýtið með hliðsjón af því að sjávarútvegsstefna okkar skilar almennt arði sem er ekki normið. (Forseti hringir.) Þess vegna velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki (Forseti hringir.) áhuga á að sjá hvert sú vegferð (Forseti hringir.) mundi leiða.