143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:25]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég reikna ekki með að ég hafi notað orðið gjaldeyriskreppa heldur talað um vanda myntbandalagsins almennt. Hann felst í því að þegar ólíkar þjóðir nota sama gjaldmiðilinn og sama seðlabankann getur orðið mjög mikil tilfærsla á peningum og sjóðum innan svæðisins. Maður hefur sé það í Suður-Evrópu að bankarnir hafa verið að skuldsetja sig mjög mikið, fólk hefur tekið peninga út úr þeim bönkum og fært yfir í aðra lögsögu. Þá tæmast bankarnir af peningum og seðlabankinn hefur þurft að veita stjórnvöldum lán til að endurfjármagna bankana. Þau lán eru á ábyrgð skattgreiðenda. Þessi gangur hefur gengið mjög langt innan Evrópusambandsins og er orðin mjög mikil gjá og mikil spenna innan myntsvæðisins sem er óleyst. Sérfræðingar og fjárfestar eins og George Soros hafa haldið því fram að þetta hljóti að enda með því að myntbandalagið brotni upp eða Þýskaland gangi úr myntbandalaginu eða eitthvað gerist.

Ég vildi því bara vekja athygli á óvissunni sem núna ríkir um myntbandalagið.

Varðandi krónuna er ég bjartsýnn á að hægt sé að stýra henni til framtíðar miklu betur en hefur verið gert hér (Forseti hringir.) í fortíðinni.