143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar, um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, er að mínu viti stigið stærra skref en þegar Alþingi ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009, öndvert við það sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hélt fram áðan. Mín rök fyrir því eru þessi:

Í ákvörðun Alþingis 2009 var alltaf lagt upp með það að þjóðin ætti að hafa síðasta orðið í þessu máli, taka endanlega ákvörðun um tengsl okkar við Evrópusambandið. Það datt engum í hug — það datt engum neitt annað í hug — en að málið yrði lagt í dóm þjóðarinnar.

Vissulega voru uppi skiptar skoðanir um hvort það ætti að gerast með þeim hætti að fara fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu og spyrja: Eigum við að sækja um aðild? Og þá að sjálfsögðu með því fororði að niðurstaða samnings yrði aftur borin undir þjóðina. Eða: Eigum við að fara í viðræður, fá samningsniðurstöðu og bera hana undir þjóðina? Það datt engum annað í hug. Sú leið sem þá var farin átti alltaf að enda í ákvörðun þjóðarinnar um tengsl sín við Evrópusambandið.

Tillagan sem nú er á dagskrá fer algerlega í öfuga átt. Hún er að segja: Við ætlum að hætta þessum viðræðum, við ætlum að draga umsóknina til baka og við ætlum ekki að láta þjóðina taka ákvörðun um hvort það skref verður stigið. Að vísu er gert ráð fyrir því að þjóðin komi að málinu ef einhverjum dettur í hug að taka upp viðræður á nýjan leik. Það er bara allt önnur spurning. Við erum hér með ákveðna stöðu í þessu máli sem byggir á þingsályktun frá sumrinu 2009 þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að leggja inn þessa umsókn og ríkisstjórnin fór í þá vegferð.

Ákvörðunin sem yrði tekin ef þessi tillaga yrði samþykkt eins og hún liggur fyrir er þess vegna að mínu viti stærra pólitískt skref en fólst í samþykktinni 2009. Þetta er mín skoðun. Ég heyrði að hv. þm. Frosti Sigurjónsson er annarrar skoðunar en það er ágætt í lýðræðissamfélagi að geta haft ólíkar skoðanir á málum, til þess erum við nú hér.

Ég vil líka aðeins fara í upphaf þessa máls: Þegar Alþingi samþykkti þingsályktunina um að hefja viðræður við Evrópusambandið fylgdi því mjög ítarlegt nefndarálit. Tillögutextanum var breytt í utanríkismálanefnd, sem er ágætt fordæmi — ég vek athygli á því hér að utanríkismálanefnd hefur breytt þingsályktun frá utanríkisráðherra um ESB-mál, hún gerði það 2009, þannig að það má gera það aftur. Farið var ítarlega yfir meginhagsmuni Íslands í tengslum við Evrópusambandsaðild, mjög ítarlega. Það var líka farið yfir ferlið. Í þessari umræðu hefur alltaf verið sagt: Ja, það á bara að kíkja í pakkann. Það er ekki til. Fyrst átti að fara í viðræður um stóru kaflana, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, og eitthvað þess háttar.

Í nefndarálitinu, á bls. 5, segir, með leyfi forseta:

„Kjósi EFTA-ríki að sækja um aðild má telja líklegt að það gangi beint til viðræðna um þau atriði sem falla undir gildandi samninga EFTA við ESB og ljúki þeim.“

Þetta sagði í nefndarálitinu frá þeim tíma. Það var engin ástæða til að segja: Já, við förum fyrst í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin af því að það eru erfiðu kaflarnir. Nefndarálit utanríkismálanefndar sagði annað. Í nefndaráliti utanríkismálanefndar segir hvergi að ferlið eigi að taka 18 mánuði, eins og líka er haldið fram í þessari umræðu, aldrei. Og ég sem formaður utanríkismálanefndar lét hafa það eftir mér í mörgum viðtölum að ég teldi — og það var árið 2009 — í fyrsta lagi mögulegt að þessu ferli yrði lokið 2013. Það voru sumir aðrir sem voru bjartsýnni og töldu að ljúka mætti þessu á skemmri tíma, þetta var mitt mat þá, í fyrsta lagi. Umsókn Íslands varð síðan ekki að veruleika fyrr en sumarið 2010, ári eftir að þingsályktunin var samþykkt, þannig að af því leiðir að það ferli hefði átt að taka enn þá lengri tíma.

Ég vil halda þessu til haga í þessari umræðu af því að það er mikið sagt. Það er líka sagt í þessari umræðu að allir viti hvað felist í aðild að Evrópusambandinu. Já, margir vita það og margir hafa mjög sterkar skoðanir á því og það er bara virðingarvert. Margir hafa þá skoðun að við eigum ekkert erindi í Evrópusambandið, burt séð frá því hvernig aðildarsamningur kynni að líta út, sjávarútvegsmálin, landbúnaðarmálin, byggðamálin, umhverfismálin eða guð má vita hvað. Fínt, það er bara allt í lagi með þá afstöðu. Aðrir segja að við eigum erindi í Evrópusambandið og eigum samleið með Evrópuríkjum, það leysi gjaldmiðilsvandamál og lækki matarverð og vexti og verðbólgu og guð má vita hvað. Sumir hafa þessa skoðun.

Ég held að stærsti hluti þjóðarinnar sé engu að síður á báðum áttum og vilji vita nákvæmlega hvað felst í aðildarumsókninni. Það er þessi hópur, stóri hópur, sem fær enga aðkomu að málinu og hefur ekki svörin fyrir framan sig af því að niðurstaða aðildarviðræðnanna liggur ekki fyrir. Þess vegna er ég andsnúinn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gerum okkur hins vegar alveg grein fyrir því að það voru kosningar síðastliðið vor, eins og stundum er sagt í þessum ræðustól af sumum hv. þingmönnum. Það var kosið og Alþingi er öðruvísi samansett núna og önnur sjónarmið uppi og það er allt í góðu með það. Mín sannfæring er hins vegar sú að engin sátt verði um þetta mál, hvorki nú né síðar, öðruvísi en að þjóðin komi að ákvörðun í málinu. Ég bara hef þá sterku sannfæringu.

Það má alveg segja: Af hverju var ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðsluna 2009? Sumir vildu það. En framámenn, t.d. í Heimssýn, höfðu miklar efasemdir um það, þeir lögðust gegn því á þeim tímapunkti. Þeir hafa skipt um skoðun. — Jú, ég var í stjórn Heimssýnar og það þýðir ekkert að hrista hausinn, hv. þingmaður, ég veit allt um það. — Það voru margir forustumenn Heimssýnar sem sögðu: Ekki tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju? Af því að þeir óttuðust að jáyrði við því að fara í viðræður mundi binda hendur margra kjósenda þegar kæmi að síðari atkvæðagreiðslunni um niðurstöðu aðildarsamnings. Var það rétt eða ekki? Ég veit ekkert um það, en þessum sjónarmiðum var mjög haldið á lofti og við þekkjum þau mörg hver hér.

Allt að einu var alltaf sagt: Þjóðin á að taka ákvörðun. Það var því enginn skaði skeður með því að fara í viðræðurnar í sjálfu sér, vegna þess að það var ekkert verið að fara með Ísland inn í Evrópusambandið, þjóðin átti alltaf að segja sína skoðun á því. Margir sem eru þeirrar skoðunar að við eigum ekki að fara í Evrópusambandið stóðu að þessari ákvörðun út frá þeirri hugsun, lýðræðishugsun, að þjóðin ætti að segja skoðun sína og við ættum að virða þá niðurstöðu þjóðarinnar hvort sem við værum fylgjandi eða andsnúin aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst það mikilvægt.

Við í þingflokki Vinstri grænna höfum hins vegar horfst í augu við það að núverandi ríkisstjórn vill ekki vera í þessum viðræðum og hefur talað um ákveðinn ómöguleika. Við erum ekki sammála því mati að það sé ómögulegt. En gott og vel. Ef hún vill ekki vera í þessum viðræðum er ekkert endilega ástæða til að vera að troða því upp á hana að vera í þessum viðræðum. Þess vegna höfum við lagt fram tillögu sem við teljum að geti verið grunnur að ákveðinni sátt: Setjum viðræðurnar í formlegt hlé, gerum formlegt hlé á viðræðunum, og sinnum þeim þess vegna ekki það sem eftir lifir þessa kjörtímabils, en uppfyllum það sem allir stjórnmálaflokkar hafa í raun sagt, að þjóðin eigi að taka ákvörðun í málinu. Efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins þannig að þegar að næstu kosningum kemur verði búið að taka ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvert næsta skref verður. Ef þjóðin vill ekki halda áfram viðræðum, þá þarf ekkert að ræða það frekar. Það verður ekki einu sinni umræðuefni í kosningabaráttunni og enn síður við myndun næstu ríkisstjórnar. Ef þjóðin vill halda þessu áfram þá geta stjórnmálaflokkarnir sagt það við þjóðina fyrir fram: Ætla þeir að virða þann vilja eða ætla þeir ekki að virða hann? Ég tel að virða eigi þjóðarviljann, hver sem hann verður, í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við erum hér að bjóða upp á leið sem felur þetta tvennt í sér: Koma til móts við þau sjónarmið sem ríkisstjórnin hefur haft í frammi, að hún vilji ekki vera í þessum aðildarviðræðum, virða þann ásetning og þá afstöðu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki mjög algengt að stjórnarandstöðuflokkar rétti ríkisstjórn sáttarhönd með þessum hætti, ekki mjög algengt, en það er gert núna, einfaldlega vegna þess að við teljum mikilvægt að ná sem allra breiðastri sátt um framhald þessa máls. Setjum það á ís, efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en kjörtímabilinu er lokið og sjáum hver niðurstaða þjóðarinnar verður þá. Vill hún halda þessu áfram eða vill hún það ekki? Ef hún vill halda þessu áfram þá getur það orðið innlegg við myndun næstu ríkisstjórnar.

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliða hér á þingi til að taka í þessa sáttarhönd, fara að minnsta kosti í efnislega umræðu um þá tillögu, bæði hér í þingsal og í utanríkismálanefnd, og sjá hvort við getum náð saman um einhverja góða leið sem sem allra flestir geta fellt sig við.