143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Í fyrsta lagi hvort fram hafi komið tímamörk þá man ég ekki til þess og veit ekki til þess að fram hafi komið nein tímamörk, hvorki í viðræðunum sjálfum, að sett hafi verið fram tímamörk um hvenær þeim ætti að vera lokið eða einstökum þáttum þess, né þegar ákveðið var að hægja á ferlinu eða fresta því í ársbyrjun 2013 í aðdraganda kosninga, ég kannast ekki við það.

Það er rétt að settar voru fram ákveðnar forsendur í þingsályktunartillögunni og það var tekið fram í tillögutextanum, sem var breyting frá utanríkismálanefnd, að í aðildarviðræðunum skyldu þau sjónarmið lögð til grundvallar, þau sjónarmið sem komu fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar skyldu lögð til grundvallar. Þetta nefndarálit var að sjálfsögðu þýtt og sent til okkar viðsemjenda í þessu máli.

Ég kannast heldur ekki við að nokkurn tíma, á fundum sem utanríkismálanefnd eða við í þinginu áttum með kollegum okkar í Evrópusambandinu, hafi verið sagt að útilokað væri að ná því sem sett var fram, kannski ekkert mikið verið að tjá sig um það í sjálfu sér að öðru leyti en því að þetta væri það sem við legðum til grundvallar, þannig að ég kannast ekki við að það hafi verið sagt að útilokað væri að ná því. Auðvitað voru oft umræður um það hvaða sérlausnir eða undanþágur væru til staðar í Evrópusambandinu og hvernig þær virkuðu o.s.frv.

Síðast varðandi aðlögunarferlið eða aðildarferlið, mér finnst engu máli skipta hvaða nafn menn gefa svona viðræðum. Þetta er orðhengilsháttur og orðaleppar í mínum huga. Það er hins vegar alveg ljóst að ekki var gerð krafa um að Ísland breytti lagaumhverfi sínu eða stofnanakerfi í átt að Evrópusambandinu á meðan á viðræðunum stæði. Það var bókað sérstaklega í viðræðum Íslands við Evrópusambandið, liggur þar fyrir í fundargerð, að ekki var gerð krafa um slíkt.