143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er mikilvægt að draga þetta fram hér vegna þess að þarna talar sá sem leiddi utanríkismálanefnd á umræddum tíma. Eftir að þessi þingsályktunartillaga var lögð fram samþykktu 28 lönd Evrópusambandsins að fara í viðræðurnar og vissu forsendurnar. Það kemur því á óvart að allir skuli fyrir fram segja: Nei, þeir vilja ekkert við okkur tala um þessi og hin atriði, það liggur allt fyrir í einhverjum reglum annars staðar frá. Það hefur ekkert komið fram um það mál nema vangavelturnar einar.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um samningahópana sem voru skipaðir í hverjum málaflokki fyrir sig. Ég tel mikilvægt að draga það fram að þar voru settir saman hópar sem voru ekki skipaðir flokkspólitískt heldur reynt að draga viðræðurnar upp úr þeim farvegi og reyna að skapa breidd í sambandi við þá vinnu. Ég held að það sé mikilvægt að heyra frá hv. þingmanni hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér á því hvernig haldið hafi verið utan um þessa hópa hvað það varðar.