143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að ljúka svari mínu við síðustu spurningu úr fyrra andsvarinu, þ.e. um hvaða dæmi hafi verið um aðlögun. Það hefur oft komið upp að gerð hafi verið krafa um að breyta löggjöf eða stofnunum. Ég hef spurt: Geta menn nefnt einhver dæmi, þótt ekki væri nema þrjú dæmi, um að Ísland hafi orðið að breyta löggjöf sinni eða stofnunum í viðræðuferlinu? Ég hef aldrei séð nein dæmi þar að lútandi. Þau kunna að vera til en ekki mér vitanlega, ég hef aldrei fengið að vita neitt um það.

Varðandi samningahópana sérstaklega þá er það rétt að þeir eru auðvitað fjölmargir og komu úr ólíkum áttum. Það voru fulltrúar hins opinbera, ráðuneyta, stofnana, frjálsra félagasamtaka, hagsmunaaðila, vinnumarkaðarins, utan úr samfélaginu o.s.frv.; ég tel að vel hafi verið staðið að skipan þeirra og þeir hafi ekki verið skipaðir á neinum flokkspólitískum forsendum.