143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:50]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðu hans. Ég held að hann hafi farið í meginatriðum yfir ágreining og mismunandi sjónarmið og dregið þau skýrt fram.

Það er tvennt sem ég vildi spyrja þingmanninn um. Fram kom í ræðunni að í þingsályktunartillögunni 2009 hafi ekkert verið talað um að fara ætti fyrst í sjávarútvegskaflann eða landbúnaðarkaflann. Ég vil spyrja hvort mig misminni eitthvað með það að utanríkisráðherra á þeim tíma hafi talið að það ætti að gera, og margsinnis sagt það á opinberum vettvangi, því að auðvitað mundi niðurstaðan, hvort viðræðurnar sigldu beinlínis í strand eða ekki, ráðast af þeim mikilvægu þáttum.

Hin spurningin sem ég vildi spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um varðar þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. hvort þjóðaratkvæðagreiðsla, kannski rétt fyrir næstu kosningar, mundi binda næstu ríkisstjórn í sjálfu sér. Yrði slík þjóðaratkvæðagreiðsla nokkuð annað en ráðgefandi? Það gæti hugsanlega skipt máli í kosningunum. Ef stjórn yrði mynduð sem vildi ekki fara í sambandið og vildi ekki fara í viðræður þá mundi sú stjórn auðvitað ekki gera það. Hvaða þýðingu hefði slík þjóðaratkvæðagreiðsla í raun um áframhald í viðræðum?