143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. Brynjar Níelsson hafi rétt fyrir sér í því að þau sjónarmið hafi komið fram að skynsamlegt væri að láta reyna á kafla eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarmál snemma í viðræðuferlinu. Nú hef ég ekkert fyrir framan mig um það en ég hygg að ég muni það eins og hann að það kunni að vera rétt.

Í viðræðum sem ég átti við ýmsa forustumenn Evrópusambandsins og Evrópuþingsins á þeim tíma komu fram þau sjónarmið að mikilvægt væri að farið yrði tiltölulega fljótt í þá kafla sem við vissum að yrðu tímafrekir í viðræðunum, vegna þess einfaldlega eins og ég segi, þeir eru tímafrekir og mundu taka lengri tíma, samhliða því að viðræður væru um kafla eins og EES-kaflana sem gætu gengið greiðar fyrir sig. Þau sjónarmið voru því alveg uppi. Það sem ég benti á áðan var að það var ekki veganestið frá Alþingi í þeirri þingsályktun sem var samþykkt 2009 burt séð frá því hvaða sjónarmiðum menn kynnu síðan að hafa haldið fram í umræðunni í framhaldinu.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu vil ég segja þetta: Ég hef allan tímann verið þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla að lögum, fyrir hv. þingmann, er ekki bindandi nema til hennar sé stofnað vegna ákvæða í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hún er ráðgefandi, en hún getur verið pólitískt skuldbindandi fyrir stjórnmálaflokka. Þá minni ég á að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Noregs 1993 var ráðgefandi, það var ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla, hún var ráðgefandi. Stórþingið norska þurfti að samþykkja málið í kjölfarið. Allir stjórnmálaflokkar í Noregi nema einn, allir aðrir stjórnmálaflokkar, líka þeir sem voru andsnúnir aðild að Evrópusambandinu, sögðu: Við munum virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og greiða atkvæði í samræmi við hana í Stórþinginu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þær yfirlýsingar stjórnmálaflokkanna voru pólitískt (Forseti hringir.) skuldbindandi, og það er hægt að gera í þessu tilfelli.