143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:54]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé það auðvitað ekki fyrir mér hvaða binding það gæti verið í niðurstöðu slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda áfram viðræðum um eitthvað sem kannski er búið að kjósa um í kosningum áður, þ.e. flokkur segir: Ég ætla ekki að halda viðræðunum áfram, ég vil það ekki. Getur einhver slík þjóðaratkvæðagreiðsla, áður en kosningar til þings verða, bundið slíkan flokk? Mér er það algjörlega óskiljanlegt hvernig það er hægt, en það getur vel verið að menn vilji gera eitthvað í því. En það er vissulega lapsus við þetta og þetta er praktískt vandamál sem ég sé ekki í hendi mér hvernig verður leyst.

Í lokin vil ég spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort hann sjái fyrir sér einhvern mun á því að slíta viðræðum formlega eða taka ákvörðun um að viðvarandi hlé verði gert þar til annað kemur í ljós. Er einhver meiri hætta í kringum það?