143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góðar spurningar. Það er rétt að það er mikil hætta á því að þetta mál haldi áfram að krauma. Ég held að okkur öllum finnist leiðinlegt að standa í deilum og hártogunum og almennum leiðindum. Auðvitað viljum við öll ró og frið.

Það hefur samt sýnt sig, hvort sem lönd hafa gengið í Evrópusambandið eða eru að velta því fyrir sér, að alls staðar eru mjög skiptar skoðanir um ágæti þess og hvort það henti þjóðum að vera innan þess eða utan. Ég verð að segja alveg eins og er að ég veit ekki og get ekki sagt til um hvort við leysum þetta mál til framtíðar, hvort sem við klárum aðildarviðræðurnar eða ekki, hvort það muni halda áfram að krauma.

Ég held að umræðan um þjóðaratkvæðagreiðslu snúist um það sem fólk vill og maður heyrir það á viðtölum að fólk vill fá upplýsingar. Fólk vill fá að vita hvað Evrópusambandið er, hvað það þýðir fyrir okkur. Það er eðlilegt að fólk hugsi þannig. Við sem sitjum á þingi höfum kannski fengið fleiri tækifæri og meiri tíma til að kafa ofan í málið.

Ég tel að skýrslan sem kom út frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands með viðaukum sé mjög góð. Fólk getur nálgast hana á netinu. Við þingmenn höfum hana auðvitað öll fyrir framan okkur. Mér finnst hún vera mjög gott yfirlit yfir hvað Evrópusambandið er akkúrat og hvað það hefði hugsanlega að bjóða okkur.

Þetta er mitt svar.