143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir mjög fróðlega og málefnalega ræðu þar sem hún fór ágætlega yfir sögu Evrópusambandsins og hvernig aðdragandi að stofnun Evrópusambandsins var og yfir stöðu okkar sem smáþjóðar með alla okkar kosti; orku, hreint land o.s.frv. Meðal annars ræddi hún sjávarútveginn sem er kannski eitt stærsta bitbeinið.

Hv. þingmaður sagði einmitt hreinskilnislega, og mér finnst það mjög gott, að ekkert væri útilokað, þó væri það frekar ólíklegt að við fengjum sérlausnir. Er það ekki í hnotskurn það sem málið snýst um, að við erum einmitt með getgátur og þegar við förum af stað í þetta ferli setjum við strangar kröfur í þingsályktunartillögu sem ekki hefur verið hafnað? Af hverju klárum við ekki umræðuna og fáum þessi svör í staðinn fyrir að vera með getgátur?

Það er líka sagt að gæta eigi jafnræðis gagnvart öðrum löndum og þar af leiðandi setji ESB sínar reglur. Þá kemur þetta sama upp, ESB þekkti nákvæmlega hvaða forsendur fylgdu umsókninni á sínum tíma og hefur ekki hafnað þeim hingað til. Af hverju er þá ekki ástæða til að fá svör?

Síðan nefnir hv. þingmaður réttilega að þetta gæti kostað peninga, þetta gæti haft einhverjar afleiðingar fyrir okkur hagfræðilega varðandi tekjur og útgjöld, en svörin liggja ekki fyrir. Af hverju bíðum við ekki og skoðum það? Hv. þingmaður nefndi réttilega að mikilvægt væri að vera með opna og hreinskilnislega umræðu einmitt til að fá fram allar þessar staðreyndir til að við gætum tekið málefnalega afstöðu svo við gætum fengið upplýsingar.

Nú vitum við að sú skýrsla sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var unnin að beiðni hæstv. ríkisstjórnar og var auðvitað afmörkuð. Það er von á annarri skýrslu. Eigum við þá ekki að bíða eftir henni og fá hana með í ákvörðunartökuna (Forseti hringir.) í anda þess sem hv. þingmaður talaði hér fyrir?