143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var fyrst og fremst að spyrja um og hefði mátt draga saman í eina spurningu er: Af hverju fáum við ekki svörin í staðinn fyrir að geta okkur til um niðurstöðurnar? Það er kannski meginatriðið sem ég vildi draga fram.

Varanleikinn — það er búið að ræða það að allt sé breytilegt í Evrópusambandinu. Talað var um að evran mundi aldrei ná verðgildi dollars, að þetta yrði „óstabíll“ gjaldmiðill. Við erum að tala um stöðuna fyrir 14 árum. Hvað hefur gerst? Evran er 50% hærri en dollarinn og búin að vera það allan tímann frá því að hún var lægri upphaflega. Og við erum samt að tala um ótrausta evru.

Það hefði verið ástæða til að ræða hér, og kannski kem ég inn á það í ræðu; hver er staða smáríkis sem ekki er í stóru bandalagi eða hvernig er það varið þegar kemur að því að skoða hagsmuni á norðurslóðum?

Hv. þingmaður talaði réttilega um að hér kæmu inn þrjár tillögur sem allar yrðu ræddar í nefndinni og ég tek heils hugar undir það, en finnst hv. þingmanni ekki eðlilegt að við fáum tækifæri til að ræða hverja og eina þeirra? Ég sá að hv. þingmaður lenti sjálfur í vandræðum með tímann þó að hann hafi til viðbótar fimm mínútur í seinni ræðu. (Forseti hringir.) Við erum með tvær aðrar tillögur. Við höfum ekki fengið svör við því hvort við fáum tækifæri til að ræða þær að fullu áður en tillagan fer í nefnd.