143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, en ég verð að segja eins og er að mér finnst bæði ræða hv. þingmanns og svör við andsvörum eiginlega vekja fleiri spurningar en hún svaraði. Ég finn afskaplega margt í ræðu hv. þingmanns sem ég er hjartanlega sammála. Gallinn er sá að við erum á öndverðum meiði um hvað eigi að gera í þessari tilteknu þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu.

Til að hafa það skýrt, sem ég veit auðvitað að það er, erum við hér að tala um þingsályktunartillögu um að slíta viðræðunum. Við erum ekki í sjálfu sér að reyna að komast að endanlegri niðurstöðu um hvort Evrópusambandið sé góð hugmynd eða ekki. Við höfum ekki enn þær forsendur sem þarf til að draga slíka ályktun. Til þess þyrfti að klára viðræðurnar við Evrópusambandið.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega að það væri óskandi að þessi umræða færi fram um Evrópusambandið með ítarlegri upplýsingum og meiri umræðu. Því er ég hjartanlega sammála en í því hefur legið gagnrýni svokallaðrar stjórnarandstöðu í gegnum allt þetta ferli. Okkur finnst sérstaklega erfitt að trúa því að í nefndastörfum leynist einhver hugur á því að breyta til eftir það sem á undan er gengið. Ég veit að það er ekki hv. þingmanni að kenna heldur eru það vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki endilega hægt að ætlast til að hv. þingmaður svari fyrir hæstv. ríkisstjórn í öllum þessum málum. Við vitum ekki, og hv. þingmaður virðist vera sammála, hversu langt við getum gengið í sérlausnum. Skýrslan svarar því ekki, hún segir að eitt sé erfitt og annað ekki óyfirstíganlegt.

Finnst hv. þingmanni ekki eitthvað stórt vanta í þessa umræðu áður en við getum tekið ákvörðun um hvort við eigum að slíta þessum viðræðum eða ekki?