143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:29]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef hugsað um nokkurn tíma hvernig sé rétt að nálgast umræðu um þingsályktunartillögu meiri hlutans hér á þingi um slit á viðræðum við Evrópusambandið. Ég hef sett þó nokkuð mikla pressu á sjálfa mig um að segja einmitt akkúrat rétta hlutinn til að fá þá sem bera ábyrgð á þessari þingsályktunartillögu til að skipta jafnvel um skoðun eða breyta tillögunni þannig að hún verði ekki jafn afgerandi að mínum dómi og hættuleg fyrir hagsmuni Íslands til lengri tíma og skemmri.

Ég geri mér samt sem áður grein fyrir því að þessi ræða mín er einungis dropi í hafið og allflest sem ég er að fara að segja hérna hefur nú þegar komið fram. En sem kjörinn fulltrúi hef ég það hlutverk að fylgja sannfæringu minni og vera rödd þeirra sem upplifa þessa þingsályktunartillögu sem jafn mikil vonbrigði og ég gerði, hvort sem þeir kusu mig eða gerðu það ekki. Vonbrigðin eru ekki einungis komin til vegna þess að þessi tillaga er ekki í takt við sannfæringu mína eða að hún ber með sér þá heimssýn sem ég deili engan veginn heldur eru vonbrigði mín líka þau að í síðustu kosningum gafst okkur ekki tækifæri til að skýra línurnar betur um framtíð okkar.

Blákaldur sannleikur varðandi viðhorf ríkisstjórnarflokkanna um áframhaldandi viðræður við ESB liggur nú fyrir, tæpu ári eftir kosningar. Það er að mínum dómi betra að fást við sannleikann þó að hann sé manni ekki að skapi en að troða marvaða í lygi.

Stefna Bjartrar framtíðar er skýr varðandi ESB. Við teljum mjög mikilvægt að ljúka aðildarviðræðum og bera samninginn undir þjóðina, fyrst og fremst til að útkljá þetta mál eins og siðmenntuð þjóð og taka upplýsta umræðu og fá upp á borðið endanlega þá valkosti sem standa okkur til boða, t.d. varðandi gjaldeyrismál og lausn á fjármagnshöftum eða samstarf á vettvangi sveitarstjórna Evrópu. Það er ekki rétt sem oft er haldið fram að okkur standi ekkert annað til boða en copy/paste af aðildarsamningi Kýpur. Það er heldur ekki rétt að okkur standi til boða autt blað sem við getum bara sniðið eftir okkar eigin þörfum. Þetta er ferli og í þessu ferli munum við bæði vinna og tapa.

Ef við skilgreinum hagsmuni okkar og markmið út frá þeim og gerum þetta ferli faglega getum við náð góðum árangri og raunar var sá árangur að nást að miklu leyti. Það að erfiðir samningskaflar eins og um landbúnað og sjávarútveg hafi ekki verið opnaðir þykja mér ekki nægilega góð rök og að halda því fram að það hafi ekki verið vilji til þess vegna erfiðra óskyldra mála tel ég alls ekki nógu sterk rök. Mér þykir það sýna ákveðið metnaðarleysi fyrir hönd Íslands að gefa okkur ekki það tækifæri að takast á við erfið viðfangsefni og leysa þau, t.d. makríldeilu okkar, lambakjöt og annað.

Það veldur mér vonbrigðum að sjá allt það góða starf sem búið var að vinna í aðildarferlinu glatast vegna pólitísks ómöguleika. Ég upplifi þessa stöðu alls ekki pólitískt ómögulega. Mér finnst öllu heldur stjórnarflokkarnir hafa komið sér í þennan pólitíska ómögulega með því að eiga ekki heiðarlegt samtal við kjósendur í aðdraganda síðustu kosninga. Ég lít svo á að ábyrgð þeirra sé mjög mikil í að leysa þessa stöðu svo að góð sátt geti ríkt um hana.

Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á það í andsvörum sínum í ræðu til hv. þm. Birgittu Jónsdóttur í dag að þessi tillaga fengi nú þinglega meðferð og við yrðum að treysta á þingið og meðferð málsins þar. Ég trúi því að tillagan geti farið inn í utanríkismálanefnd og komið betri út úr henni en hún er í dag.

Tillaga VG um hlé á viðræðum er mér alls ekki að skapi enda tel ég okkur ekkert að vanbúnaði að fá úr því skorið hvenær og hvernig við getum búið til framtíðarplön byggð á einhverju aðeins sterkara en skyggnilýsingu. En úr því sem komið er getum við í Bjartri framtíð sætt okkur við hlé á viðræðum enda erum við ekki á þingi til að fá vilja okkar alfarið framfylgt. Þar komum við einmitt að kjarna málsins og raunverulegri ástæðu þess að ég og þúsundir annarra upplifum mikil vonbrigði og vanmátt.

Í aðdraganda síðustu kosninga gáfu bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá sér mjög afgerandi yfirlýsingar um að ekki yrði haldið áfram aðildarviðræðum nema með aðkomu þjóðarinnar. Orðið slit eða umræða um hugsanleg slit átti sér aldrei stað. Tillagan sem hér um ræðir er mjög afdráttarlaus í því að slíta beri viðræðum. Hefði það legi fyrir tel ég allar líkur á því að úrslit kosninga hefðu orðið með öðrum hætti enda mikill meiri hluti sem vill ljúka aðildarviðræðum. Því má vera ljóst að sá stjórnarmeirihluti sem er á Alþingi hefur ekki að mínu mati umboð til að taka þessa ákvörðun og undirskriftir 49 þús. Íslendinga, sem er meira en kjósendur Framsóknarflokksins í síðustu kosningum, staðfesta þetta. Þetta segi ég alls ekki til að afvegaleiða umræðuna eða vera með almenn leiðindi heldur segi ég þetta vegna þess að það er ábyrgðarhluti að stíga fram og leggja á borðið fyrir kjósendur stefnu sína og sýn á framtíðina.

Í aðdraganda síðustu kosninga var nánast einungis rætt um eitt mál, skuldamál heimilanna. Þegar færi gafst á að tala um önnur mál, eins og ESB og aðildarviðræðurnar, voru gefin fremur afdráttarlaus svör um að halda skyldi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Hafi það svo komið í ljós eftir kosningar að innan þingflokks Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sé ekki vilji til að halda aðildarviðræðum áfram er langheiðarlegast að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst og ef niðurstaðan yrði sú að þjóðin vildi halda aðildarviðræðunum áfram stæðum við frammi fyrir þeim sannleika. Þá væri tvennt í stöðunni fyrir núverandi ríkisstjórn, að ná sem bestum samningi eða horfast í augu við það að umboðið sem hún byggði þessa tillögu á væri ekki fyrir hendi. Hvorugt verður auðvelt. Það er hins vegar mjög mikilvægt í þeirri viðleitni okkar að brúa bilið milli þings og þjóðar sem kjörnir fulltrúar og öðlast þannig þá virðingu og það traust sem hvert og eitt okkar á skilið fyrir að stíga fram og vilja þjóna samfélagi okkar.