143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var firnagóð en það eru nokkur atriði sem ég staldraði við. Þingmaðurinn sagði í ræðu sinni að hún vildi ekki afvegaleiða umræðuna með því að minna á að þetta sé svikatillaga. Mig langar í tilefni af því að minna á að það er akkúrat ár síðan hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson sagði í viðtali í sjónvarpi, með leyfi forseta:

„Ég er sammála því að það verði stöðvaðar þessar viðræður, að það verði ekki farið í það sem kallað er hægja á eða gera hlé, sem er auðvitað ekkert annað en að halda áfram en bara gera það hægar, og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin fái að segja sinn hug í því hvort hún vilji klára þetta eða ekki. Ef það er þannig að þjóðin segi já við því þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.“

Þetta sagði hæstv. ráðherra fyrir nákvæmlega ári síðan. Hann situr núna í ríkisstjórninni sem lagði fram þessa svikatillögu. Það var einmitt 10. mars. Kaldhæðni örlaganna.

Hann hefur reyndar hlaupið undan orðum sínum en það eru þrír aðrir hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal formaðurinn, sem hægt er að hafa eftir svipuð orð þar sem þeir lofuðu kjósendum sínum þessu. Telur þingmaðurinn eðlilegt í ljósi kosningaloforða sem þessara sem svikin eru með þessari endemis tillögu að tillagan fari til nefndar? Er ekki eðlilegt að taka undir þá kröfu sem er mjög hávær, sem kallað hefur fram mótmæli í átta daga á Austurvelli, sem safnað hefur undirskriftum 20% kjósenda, að tillagan verði dregin til baka? Telur hv. þingmaður virkilega að þessi tillaga eigi erindi í þingnefnd, jafn mikil svik sem hún er við kjósendur?