143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum sammála um að þetta er vond tillaga. Mér finnst það nefnilega skipta svo miklu máli að við hugsum um tillöguna í réttu samhengi. Þessi tillaga gjaldfellir stjórnmál, hún gerir lítið úr stefnuskrá flokka, hún gerir lítið úr stjórnmálamönnum. Mér finnst það vera hlutverk okkar í minni hlutanum að standa með kjósendum. Fyrir utan þá sem hafa undirritað þessa áskorun og þá sem mótmæla hér má sjá almenna andstöðu í skoðanakönnunum þannig að ég kalla eftir því að hv. þingmaður skipi sér í lið með okkur sem viljum þessa tillögu burt. (Forseti hringir.) Svik þurfa ekki efnislega umræðu. Þau eru svik (Forseti hringir.) og þau eiga ekki að sjást hér í þinginu.