143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Nú deilum við því að við teljum báðar rétt að þetta mál fari fyrir dóm þjóðarinnar, þ.e. í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hún er af yngri kynslóðinni og ég veit að margt ungt fólk horfir til Evrópusambandsins, að þar séu fleiri tækifæri og meiri möguleikar og að við munum fá ýmislegt sem við höfum ekki í dag með inngöngu í Evrópusambandið: Telur hv. þingmaður að við hér, löggjafinn í landinu, gætum ekki brugðist við ýmsum málum sem við teljum að við séum að sækjast eftir með inngöngu í ESB, að við sjálf gætum ekki með löggjöf okkar gert ýmislegt sem væri gott fyrir búsetu ungs fólks hér á landi varðandi nýsköpun og ýmsa aðra þætti, menntun og uppbyggingu, sem ungt fólk horfir til til framtíðar? Hvað stendur í vegi fyrir því að við sem löggjafi búum þannig um ungt fólk fyrir framtíðina að það verði enn betra að búa á Íslandi en nú er? Þurfum við Evrópusambandið til?

Nú vitum við að það er gífurlegt atvinnuleysi hjá ungu fólki í Evrópusambandinu. Talað er um að það sé allt að 25% og að 11 milljónir atvinnulausra hafi verið það í meira en eitt ár. Það er mikið áhyggjuefni þetta mikla atvinnuleysi í Evrópu, sérstaklega hjá ungu fólki.

Mig langar til að heyra viðhorf hv. þingmanns á því hvort við sjálf getum ekki gert ýmislegt sem við ætlum að sækja yfir lækinn til Evrópusambandsins.