143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:43]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að það sé í raun og veru alveg ótrúlegt hvað við höfum komist langt á eigin ágæti og fyrir það eigum við að vera mjög þakklát. Það horfir til dæmis þannig við mér að margt ungt fólk í kringum mig sér heiminn miklu stærri en bara eyjuna okkar og skilur ekki alveg þau mörk sem við setjum, eins og gjaldeyrishöftin og krónuna okkar, af hverju við erum að búa til og halda svona fast í þessa hluti.

Ég hugsa heiminn í kringum mig ekki þannig að allt sem ég geti sótt mér til stækkunar verði hérna heima á Íslandi. Ég lít svo á að ég sé heimsborgari, ég er ekki bara Íslendingur, aðallega vegna þess að ég er fædd í Bandaríkjunum.

Mér finnst þetta vera einhvern veginn þannig að við höfum ýmislegt að segja við aðra, fræðast um og sækja til þeirra. Mér finnst það ekki rétt hugsun og rétt nálgun að einskorða okkur bara við hvað við getum gert. Þá finnst mér Evrópusambandið geta boðið upp á ýmsa möguleika en ég er alls ekki á því að Evrópusambandið sé einhver patentlausn við öllum okkar vandamálum. En við höfum samt byggt okkur upp þannig kerfi að við erum að glíma við mjög litla mynt sem kemur í veg fyrir að mörg nýsköpunarfyrirtæki, sem margt ungt fólk vinnur hjá, geti stækkað í eðlilegu samræmi við fyrirtæki annars staðar.

Ég vona að þetta svari einhverju.