143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:53]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Ég held að það sé hægt að fara marga hringi og fabúlera með framtíðina.

Ég held að það sem við ættum að reyna að læra af þessari uppákomu allri, þingsályktunartillögunni sem heild og því sem gerðist á þinginu vikuna fyrir nefndaviku, sé að augljóslega er hægt að gera hlutina mun betur og hafa allt annan aðdraganda, þ.e. hvernig lofað var að hér yrðu lagðar fram skýrslur og farið í uppbyggilega og upplýsta umræðu og því síðan ýtt til hliðar. Ég held að fólk hafi virkilega lært af því, ég vona það. Hvað gerist í framhaldinu verður framtíðin bara að leiða í ljós. Ég trúi því alla vega að það sé vilji til að koma þessu máli áfram og leita að einhverri sátt. Ég held að okkur sé enginn sómi að því að hafa hlutina eins og þeir hafa verið að undanförnu.