143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:42]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans góða andsvar. Þetta eru spurningar sem gaman væri að fá að svara í löngu máli en í grunninn er ég þeirrar skoðunar að ljúka eigi viðræðum þannig að við vitum í raun til hvers við erum að taka afstöðu. En ég er hins vegar jákvæður gagnvart þeirri sáttaleið sem fram kemur í tillögum Vinstri grænna og einnig því sem fram kemur í tillögum Pírata og Bjartrar framtíðar og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar; að gert verði hlé og síðan haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram eða ekki.

Ég er fyrir fram frekar bjartsýnn á að það geti verið góð lausn að svo mörgu leyti fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur sýnt það í byggðastefnu sinni, í félagsmálapakka sínum o.s.frv., að þar er sýndur mikill skilningur á svæðum sem eiga — eigum við að segja undir högg að sækja eða búa við sérstakar aðstæður, hvort sem það eru eyjar, fjalllend svæði, mjög dreifbýl svæði, norðlæg svæði o.s.frv. Allir landfræðilegir veikleikar sem tilteknir eru í reglum Evrópusambandsins eiga nú eiginlega við um okkar ágætu eyju hér á norðurhjara þannig að mér finnst mjög líklegt að það geti hentað Íslandi mjög vel að vera hluti af Evrópusambandinu í framtíðinni.

Auk þess held ég að sá tími sé liðinn að lönd, alla vega þróuð lönd eins og við köllum það í Evrópu, geti búið í eigin hjúpi í miðjum sjónum eins og við gátum lengi þannig að ég tel það ekki fýsilega framtíðarsýn að vera ein á báti til lengri tíma.