143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:46]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo ég klári að svara fyrri fyrirspurn þingmannsins þá tel ég að mjög erfitt sé að svara endanlega þeirri spurningu hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki áður en samningum er lokið. Ég vil taka undir ágæt orð félaga míns hv. þm. Páls Vals Björnssonar fyrr í dag.

Ég á sæti í utanríkismálanefnd eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefnir sem einnig á sæti þar. Það er dálítið erfitt að sjá fyrir sér hvernig vinnan þar eigi að fara fram. Auk þeirra þriggja tillagna sem væntanlegar eru í nefndina á enn þá eftir að ljúka umfjöllun í nefndinni um skýrslu utanríkisráðherra um stöðu viðræðnanna þannig að líkur eru til þess að sú vinna muni öll blandast saman. Mér finnst mjög mikilvægt og eiginlega nauðsynlegt að svona afdrifaríkar tillögur séu mjög vel unnar í nefndinni og að leitað verði umsagna og þær teknar fyrir, en ég vil ekki hafa skoðun fyrir fram á því hvernig sú vinna eigi að fara fram nema ég tel ekki ástæðu til að endurtaka sömu vinnuna aftur og aftur um sama málefnið.

En núna síðustu daga og vikur eftir að tillaga utanríkisráðherra var lögð fram hefur komið fram að það eru miklu fleiri en þingmenn sem hafa mjög sterkar skoðanir á þessu máli. Samtök um allt samfélagið og almenningur hefur mikinn áhuga á því að taka þátt í þessari umræðu og mér finnst mikilvægt að það samtal eigi sér líka stað en hverfi ekki inn í nefnd.