143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:59]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var farinn að óttast á tímabili að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri farinn að efast í andstöðu sinni við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann ítrekaði hana. Það léttir aðeins hugann hjá mér.

Hv. þingmaður vék að því að þjóðin ætti að koma að máli og við getum rætt það. Þá vil ég vitna til þess að það hefði ekki verið farið í þessa vegferð, aðildarviðræður við Evrópusambandið, nema fyrir stuðning hv. þingmanns, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra. Við værum ekki í þessum sporum ef ekki hefði komið til stuðningur hans. Þegar í umræðum um atkvæðagreiðsluna 16. júlí 2009 sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.“

Þessi yfirlýsing þáverandi formanns Vinstri grænna, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, var mikilvæg vegna þess að hún fól í sér að þeir þingmenn Vinstri grænna sem studdu aðildarumsóknina áskildu sér rétt til að endurskoða umsóknina og allt samningsferlið. Með öðrum orðum, þeir áskildu sér rétt til að styðja tillögu að draga umsóknaraðild að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu til baka. Nú er spurt: Hefur eitthvað (Forseti hringir.) breyst frá því að hv. þingmaður gaf þessa yfirlýsingu?