143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ljóst að við hv. þingmaður erum út af fyrir sig ekki sammála um endastöðina. Ég hef þá trú að við getum náð góðum samningi og verð þeim degi fegnust þegar við getum séð það á prenti. Engu að síður höfum við verið samferða og sammála um það hvernig þetta mál hefur verið rekið hér frá því 2009.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að gerræðistillagan, sem ég kalla svo, væri ótímabær en við þyrftum að finna út úr því hvernig við gætum haldið áfram og hvað væri best fyrir okkur og þjóð okkar í þessari stöðu, bæði innan lands og á alþjóðavettvangi.

Mikið hefur verið lagt upp úr því, finnst mér, sérstaklega af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, að það væri dónaskapur, ég veit ekki hvort ég á að nota það orð, að það væri ekki kurteislegt af okkur, að gera hlé á viðræðum eða vera í viðræðum við Evrópusambandið ef við værum það ekki af heilum hug. Mig langaði að heyra skoðun þingmannsins á þessu. Er það eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur í stöðunni eins og hún er núna, að við séum að teyma Evrópusambandið á asnaeyrunum? Er einhver hætta á því að mati þingmannsins?