143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun þó að það komi kannski ekki beint ræðu hans við. Það kemur auðvitað inn á þetta mál, sérstaklega snart það mig vegna þess að ég hélt hér ræðu kl. 2 og þegar ég kom úr ræðustól frétti ég að ríkisstjórnin hefði mótað sér stefnu í Evrópumálum. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á atburðarásinni í þessu öllu. Fyrst kemur skýrsla og áður en hún er rædd kemur þessi afdrifaríka gerræðistillaga, sem ég vil kalla svo, um að slíta viðræðum. Síðan þegar verið er að ræða þá tillögu þá dúkkar allt í einu upp Evrópustefna ríkisstjórnarinnar. Bara af því að þingmaðurinn er gamalreyndur í þessum bransa, hvað finnst honum um þessa atburðarás?