143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst þetta satt að segja hálfvandræðalegt og eiginlega fyndið. Ég upplifði þetta sem örvæntingarfullt krafs hjá hæstv. ríkisstjórn til að reyna að mæta í örlitlum mæli því sem hefur borið á góma eftir að þeir komu með sína tillögu hér. (Gripið fram í.) Hvert er þá plan Íslands? Hver á utanríkisstefna okkar að vera?

Það er eiginlega hálfhallærislegt að kalla þetta nýja Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Jú, jú, menn geta auðvitað sagt: Við ætlum að reyna að lappa upp á EES-samninginn. Við ætlum að reyna að vera ákafari í að framkvæma hann og við ætlum að fara að tala við Noreg og Liechtenstein og eitthvað svona. En er ekki stóra málið í þessu hvað verður um viðræðurnar? Hitt er að sjálfsögðu aukaatriði og afgangsstærð í mínum huga borið saman við það.

Þetta er vandræðalegt yfirklór en til marks um það að ríkisstjórnin er þó ekki alveg ónæm fyrir þeirri vandræðalegu mynd sem hefur dregist upp, þar á meðal því að fátt hefur verið um svör þegar menn hafa spurt hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherra: Hvað þá? Hver er staða Íslands? Hvaða áhrif hefur þetta á stöðu bæði út á við og inn á við?

Satt best að segja hef ég líka miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur inn á við. Ég er til dæmis að hugsa um ungt fólk sem finnst það afar fautalegt og ómálefnalegt að ætla að slíta þessum viðræðum sisona eins og bara að skella í lás og henda lyklinum. Ég finn það, þar sem ég er að ræða við fólk af yngri kynslóðinni, að mönnum finnst það mjög skrýtið. Ég hef engar áhyggjur af því að ef öll spilin lægju á borðinu og menn væru búnir að vega og meta vel hagsmuni Íslands — og þá hef ég ekkert síður trú á okkar yngri kynslóð en þeim sem eldri eru — að menn taki upplýsta og gáfulega ákvörðun um framtíð landsins. En ég skynja kynslóðamuninn að hluta til í þessu, að yngra fólkinu finnst það bara fráleit málsmeðferð að fá ekki spilin á borðið.