143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir fyrirspurnina. Nú erum við að fjalla um mál sem hefur verið gríðarlega umdeilt víðs vegar um landið, ekki bara á Suðurnesjum. Það kemur til út af tvennu, annars vegar því að menn breyttu lögum um fólksflutninga og farmflutninga og sveitarfélög fengu heimild til þess að vera með einkaleyfi innan síns svæðis. Í annan stað var tekin ákvörðun í fjárlögum þar sem um milljarður var settur í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í tíu ár. Það var gert með því fororði að á höfuðborgarsvæðinu yrði ekki farið í stórframkvæmdir, á vegum Vegagerðarinnar a.m.k., á þessu tímabili.

Ég er þeirrar skoðunar og hef verið það lengi að það þurfi að endurskoða þetta kerfi vegna þess að þegar Vegagerðin setti sig í samband við Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að útfæra þennan samning kom í ljós að menn vildu útvíkka þetta og fara m.a. á Suðurnesin, Suðurland og Vesturland. Þeir settu í það um 30 milljónir og settu svo um 3 milljónir á Vestfirði, Norðurland og Austurland.

Fyrri spurningin lýtur að því hvort það sé raunhæft að taka út bestu leggina. Ég held að skoða þurfi það sérstaklega. Staðan er þannig að þetta er kerfi sem flestir vilja halda uppi en enginn vill borga fyrir. Sveitarfélög hafa ekki lýst sig reiðubúin til þess að greiða fyrir þann kostnað sem hlýst af þessu og ríkið hefur í rauninni heldur ekki lýst yfir vilja til að gera það. Það eru áhöld um hvort þessi leggur sé hluti af almenningssamgöngum á Suðurnesjum og Samkeppniseftirlitið er með aðrar hugmyndir.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Svo að ég svari lokaspurningunni, tekur örstuttan tíma. Að sjálfsögðu viljum við hafa sjálfbærar almenningssamgöngur en ég (Forseti hringir.) mundi líka vilja sjá það í fluginu. Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki getað svarað seinni spurningunni ítarlegar.