143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum bárust hingað óyndistíðindi frá einu af samstarfsríkjum okkar á sviði þróunarmála, Úganda. Þingið þar í landi hafði þá samþykkt herfileg lög gegn samkynhneigðum sem Museveni forseti hefur nú staðfest. Það er þó enn tími þangað til þau taka gildi. Þessi lög fela það meðal annars í sér að það varðar fangelsisvist að verða uppvís að því að vera samkynhneigður eða hinsegin. Sömuleiðis leggja þessi lög þá skyldu á fólk að upplýsa um það. Það þýðir til dæmis að móðir þarf að segja til dóttur, bræður til systra.

Þetta stríðir gegn öllum þeim grundvallarviðhorfum sem við Íslendingar höfum haft og sem við höfum rekið heima og erlendis. Úganda er eitt af þremur formlegum samstarfsríkjum okkar á sviði þróunarsamvinnu. Ég stóð á sínum tíma sem handhafi framkvæmdarvalds andspænis svipuðu vandamáli sem líka tengdist Úganda. Á þeim tíma fannst mér það íhugunar virði hvort við ættum að slíta þeim formlegu tengslum sem við höfum við ríkið á sviði þróunarsamvinnu til að mótmæla þessum gjörningum. Það tókst með samstöðu ríkja að koma í veg fyrir að þau lög yrðu staðfest.

Nú er annað uppi. Ég hef velt þessu fyrir mér og komist að þeirri niðurstöðu að Ísland eigi að minnsta kosti að skoða til þrautar hvort ekki sé rétt að mótmæla með því að stappa fast niður fæti og hreinlega binda endi á þróunarsamvinnu okkar við Úganda. Mig langar til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem er formaður utanríkismálanefndar, hvort hann telji það ekki meira en einnar messu virði að staldra við og skoða það nú. Það yrði meiri háttar utanríkismál. Utanríkismálanefnd þarf því að veita leiðbeiningu til ríkisstjórnarinnar. Það er kannski ekki langur tími til stefnu þangað til lögin verða staðfest og því langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki þörf á því að endurskoða þessa stefnu og hugsanlega taka málið upp í utanríkismálanefnd.