143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil undir þessum lið, störfum þingsins, einmitt ræða störf þingsins. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að spyrjast fyrir um styrkveitingar sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið fyrir með því að útdeila fé til ýmissa verkefna, sérstaklega á sviði húsafriðunarmála. Ég geri ekki lítið úr því að mörg verkefni eru mjög brýn en það er verklagið sem ég hef ásamt öðrum þingmönnum verið að velta fyrir mér. Höfum við, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og ég, lagt fram fyrirspurn vegna þessa.

Ég kallaði eftir sérstakri umræðu um þetta mál fyrir um það bil tveimur vikum og skildi það sem svo að jafnvel kæmi til greina að hæstv. forsætisráðherra gæti mætt í sérstaka umræðu á morgun, en úr því varð ekki. Mér finnst mjög mikilvægt að þegar kallað er eftir sérstakri umræðu þá bregðist ráðherrar skjótt við, sérstaklega í svona málum sem eru í deiglunni. Það gefur okkur þingmönnum tækifæri til að sinna eftirlitshlutverki okkar. Svo finnst mér ekki síður mikilvægt að ráðherra gefist tækifæri til að koma með sína sýn á málið og eiga orðastað við þingmenn í þingsal.

Ég hef farið í þrjár sérstakar umræður og í öllum tilfellum hafa ráðherrar brugðist hratt og vel við. En hins vegar vekur það athygli mína að hæstv. forsætisráðherra er mjög sjaldan viðstaddur sérstaka umræðu og mér sýnist að af 45 sérstökum umræðum sem verið hafa hér síðan ný ríkisstjórn tók við hafi hæstv. forsætisráðherra mætt einu sinni. Ég kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra sinni þeirri starfsskyldu sinni sem þátttaka í sérstökum umræðum er. Ég veit ekki hvort virðulegur forseti getur tekið þetta mál upp en mér finnst brýnt að það verði gert. Sérstök umræða er hluti af starfslýsingu ráðherra, geri ég ráð fyrir, og á ekki að koma neinum á óvart og ráðherra verður að sýna þinginu þá virðingu að bregðast við ósk þingmanna um sérstaka umræðu og gera það eins fljótt og auðið er.