143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir málefnalegar og góðar umræður sem fóru hér fram í gær, en ég fullvissa hv. þm. Helga Hjörvar um að ríkisstjórnarflokkarnir hafa fullan hug á því að afnema verðtryggingu.

Í dag vil ég gera skógrækt að umtalsefni mínu. Ríkis- og atvinnutengd skógræktarverkefni sem unnið er að hérlendis eru fjölbreytileg. Með tilkomu landshlutaverkefna hefur verið skapaður grundvöllur fyrir fólk um allt land sem vill búa á jörðum sínum og hafa skógrækt hluta af búskap sínum. Markmiðið með landshlutaverkefnum í skógrækt er að gefa sem flestum tækifæri til að taka drjúgan þátt í þróun og viðhaldi byggðar í öllum landshlutum jafnframt því að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir.

Landshlutaverkefnin skapa grundvöll fyrir marga til að halda áfram búsetu á jörðum sínum og fyrir aðra skapa þau nýtingarmöguleika á jörðum sem áður voru lítt nýttar. Landgræðsluskógar er skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og ráðuneyti. Markmiðið er að sameina aðgerðir Landgræðslunnar og Skógræktarinnar til að klæða rýr og illa gróin svæði skógi.

Mikil þekking og reynsla hefur byggst upp og safnast í greininni sem nýtt verður til áframhaldandi vinnu og þróunar í þessari atvinnugrein. Á undanförnum fimm árum hefur átt sér stað grisjun og nýting skóga og þar sem eðli skóga er að vaxa mun þörfin fyrir grisjun aukast. Betri tré standa eftir og bíða þess að verða nýtt í verðmætari afurðir.

Nú er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd tillaga til þingsályktunar um eflingu skógræktar sem atvinnugreinar og sameiningu stjórnsýslueininga á sviði skógræktar og landgræðslu. Tækifæri til fjölþættrar atvinnuuppbyggingar í skógrækt og landgræðslu eru mikil. Mikil þekking liggur nú þegar fyrir hjá þeim stofnunum sem unnið hafa að þessum málaflokkum. Von mín er sú að okkur takist vel upp í þeirri vinnu og leggjum þannig grunn að atvinnuvegi (Forseti hringir.) sem í náinni framtíð getur orðið ein af styrkum stoðum atvinnulífs á Íslandi.