143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Krabbameinsfélagið stendur nú fyrir átakinu Mottumars eins og síðastliðin ár. Meginmarkmið átaksins er að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og að stuðla að jákvæðum lífsstílsbreytingum til að koma í veg fyrir krabbamein.

Nú eru á lífi um 5.500 karlar sem fengið hafa krabbamein. Algengasta krabbamein er í blöðruhálskirtli, lungum og ristli og tæpur helmingur þeirra sem greinast er á aldrinum 40–69 ára. Meðalaldur við greiningu sjúkdómsins er um 67 ár. Lífshorfur hafa batnað mikið og um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir 40 árum lifðu fimm ár eða lengur en nú geta um 66% vænst þess að lifa svo lengi.

Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur þriðji hver karl búist við að fá krabbamein. Talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum. Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, t.d. með því að stunda hollt líferni og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd þingsályktunartillaga sem hv. þm. Jón Gunnarsson og fleiri flytja um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Fyrir liggur samþykkt Alþingis um að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Ekki hefur enn þá verið veitt fjármagn í þá skimun en mjög brýnt er að fá fjármagn í verkefnið og að tekið verið heildstætt á þessum málum í krabbameinsáætlun sem nú er í vinnslu og reiknað er með að verði tilbúin í haust. Ég bind miklar vonir við það að við getum reynt að halda þessum alvarlegu sjúkdómum í lágmarki í næstu framtíð.