143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér samskipti þingsins við framkvæmdarvaldið og fyrst og fremst við forsætisráðherra. Það kom fram í máli hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur að vanhöld hafa verið á því að hægt hafi verið að koma við sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst full ástæða til að skoða þá stöðu í samhengi við önnur samskipti forsætisráðherra við þingið. Mig langar í fyrsta lagi að nefna ellefu daga hlé á fundum þingsins þar sem forsætisráðherra fékk það einfalda heimaverkefni að ræða við forustumenn stjórnmálaflokkanna og það varð honum um megn. Undir þrýstingi hér eftir að þingfundur hófst fékkst hann til að halda þann fund.

Nú er það svo að frá síðustu kosningum hafa verið allt að 45 sérstakar umræður og ein af þeim er umræða sem hæstv. forsætisráðherra hefur látið svo lítið að eiga við þingmenn. Það er ekki eins og það hafi ekki verið tilefni til því að mér sýnist að velflestir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafi lagt inn beiðni um sérstaka umræðu á hæstv. forsætisráðherra sem viðkomandi hefur síðan eftir drjúga bið dregið til baka. Þetta er óviðunandi. Þetta er fullkomlega óviðunandi að því er varðar samskipti framkvæmdarvaldsins við þingið. Í samhengi við það hvernig tónninn er hér oftar en ekki af hendi forsætisráðherra í garð þingsins sem er stundum spott og stundum háð, stundum lítilsvirðing, oft slegið úr og í, finnst mér ástæða til þess að við stöldrum við þetta í samskiptum þingsins við framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) og ég geri ráð fyrir að tilefni sé til að taka þetta upp sérstaklega á vettvangi þingflokksformanna.