143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

fjarvera ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

[15:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp undir liðnum um fundarstjórn því að fjarvera ráðherra Sjálfstæðisflokksins er mjög æpandi hér í þingsal. Þessir sömu hæstv. ráðherrar gáfu mjög skýr kosningaloforð fyrir kosningar um að áframhaldandi aðildarviðræður færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst óeðlilegt þegar við ræðum þetta mál að þeir sjái ekki sóma sinn í því að vera viðstaddir umræðurnar. Látum vera þó að þeir þurfi að sinna ýmsum verkefnum, á því hef ég skilning, en í þokkabót er enginn þeirra hér á mælendaskrá til að útskýra fyrir þingheimi eða kjósendum sínum af hverju þeim finnst sjálfsagt að svíkja gefin loforð.

Ég fer fram á það að hæstv. forseti þingsins kanni hvort hugur þessara hæstv. ráðherra standi til þess að sýna þinginu sem þau eru kjörin inn á þann sóma að vera viðstödd umræðu um þessa tillögu ríkisstjórnarinnar.