143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Orðheldni og traust eru mikilvæg forsenda fyrir lýðræði. Stjórnmálamenn verða að vera orðheldnir til að grafa ekki undan trausti á stjórnmálunum og þar með meginstoðum lýðræðisins. Það mál sem við ræðum nú, um að draga til baka eða slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, er dæmi um gróf svik á kosningaloforðum, svik í máli sem er mjög mikilvægt fyrir sum okkar en svik við lýðræðisskipan á Íslandi. Þetta eru stór orð, herra forseti, en við skulum rifja upp loforð hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Formaður flokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, fór yfir það í ræðu 23. mars sl. að það væri stefna Sjálfstæðisflokksins að aðildarviðræðum yrði hætt en að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þeirra á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Hæstv. núverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sagði í Silfri Egils fyrir réttu ári, 10. mars í fyrra, að hann væri sammála því að það ætti að stöðva viðræðurnar en það ætti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu svo þjóðin fengi að segja sinn hug um það hvort hún vildi klára aðildarviðræðurnar. Hann bætti um betur og sagði að ef það yrði þannig að þjóðin segði já yrðu allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.

Annar hæstv. núverandi ráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, sagði í Silfri Egils 17. mars sl., með leyfi forseta:

„Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða hvort það verði gengið lengra í þessu máli. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna.“

Fjórði hæstv. núverandi ráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði, með leyfi forseta:

„Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Og ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun.“

Orðheldni og traust er að engu haft af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Hæstv. forsætisráðherra talaði líka í kringum kosningarnar og við stjórnarmyndun eftir kosningarnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna hefur hann verið inntur eftir því hvað liggi á. Hvað hefur hæstv. forsætisráðherra sagt þjóð sinni? Hann hefur sagt að það sé krafa frá Evrópusambandinu að fá skýr svör. Svo vill til að til eru siðuð sambönd eins og Evrópusambandið sem gefa út sína stefnu. Hana má finna í ræðu stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefans Füles, sem hann flutti í utanríkismálanefnd Evrópuþingsins. Hana er að finna á heimasíðu sambandsins. Hann flutti þessa ræðu 16. október 2013. Ég ætla ekki að hafa eftir orðrétt en ræðan er á ensku og í lauslegri þýðingu er hann að lýsa því að á Íslandi hafi viðræðurnar verið stöðvaðar og Evrópusambandið sé tilbúið þegar og ef Ísland sýnir áhuga til áframhaldandi viðræðna. Hann lýsir því jafnframt yfir að hann sé fullur trausts á því að hægt sé að finna niðurstöðu sem henti báðum aðilum.

Hæstv. forseti. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvernig hæstv. forsætisráðherra helst uppi að halda því fram við þing og þjóð að það sé einhver þrýstingur af hálfu Evrópusambandsins að við tökum ákvörðun. Það er þá eðlilegt að við fáum einhverjar frekari upplýsingar um hvar þetta hafi farið fram en í ræðu stækkunarstjórans, sem er á heimasíðu Evrópusambandsins, er ekki að finna nein orð í þá veru.

Hæstv. forsætisráðherra. Í dag erum við öll Kópavogsbúar. Í gær var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs áskorun til Alþingis um að sú tillaga sem nú er til umræðu yrði dregin til baka og um áframhaldandi viðræður færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það var framsóknarmaður, Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Kópavogsbæjar, sem lagði fram þessa tillögu. Hana samþykktu bæjarfulltrúar allra flokka í Kópavogsbæ, að undanskildum þremur sjálfstæðismönnum, einn þeirra samþykkti en þrír sátu hjá; þeir treystu sér ekki til að vera á móti.

Kópavogur er stærsta sveitarfélagið í Suðvesturkjördæmi. Suðvesturkjördæmi er stærsta kjördæmi landsins þó að íbúar Kópavogs njóti ekki sama atkvæðavægis og íbúar Skagafjarðar. Íbúar Kópavogs eiga kjarkaða bæjarfulltrúa sem standa með kjósendum sínum og standa með vilja kjósenda sinna og standa með loforðum flokka sinna. Hvaða vilji stendur að baki annar en kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins og ýmissa annarra flokka?

Í skoðanakönnunum, annars vegar Fréttablaðsins, vildu um 80% kjósenda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður. Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups eru þetta um 72% kjósenda og þar af 60% sem vilja klára aðildarviðræðurnar, en látum það vera. Málið hér snýst um traust og orðheldni og að fólk fái að segja afstöðu sína. Að baki þessari áskorun standa líka nær 50 þús. undirskriftir og að baki þessari áskorun standa mótmæli kjósenda á Austurvelli dag eftir dag. Krafan er skýr, krafan er sú að tillagan sem hér er til umræðu verði dregin til baka og síðan verði ákvörðun um áframhaldandi viðræður sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Herra forseti. Ég hafna þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram um að málið gangi til nefndar. Ég neita því að Alþingi sé sett á það plan að hér sé verið að fjalla um kosningasvik í þinglegri meðferð. Það er eitthvað nýtt. Já, svíkjum bara kjósendur og svo tökum við svikin í þinglega meðferð.

Herra forseti. Það er fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég tek undir áskorun 50 þús. kjósenda um að þetta mál verði dregið til baka. Síðan er hægt að finna góðan tíma fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og áskorun Kópavogsbæjar.

Stjórnmál eru list hins mögulega. Þau snúast ekki um duttlunga einstakra stjórnmálamanna. Herra forseti. Ég er með Kópavogsbúum í þessu máli.