143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er einmitt þetta tvennt sem mér sýnist að sé kannski aðalbitbeinið hérna. Ég heyri ekki betur en að þetta séu aðalrökin, þótt kannski sé ágreiningur um það hver séu aðalrökin þannig séð gegn því að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, en ómöguleikarökin eru þau sem ég heyri hvað oftast. Mér finnst þetta svolítið hljóma eins og lögfræðingur sem treystir sér einhvern veginn ekki til að vinna að hagsmunum skjólstæðings vegna þess að hann telur hann ýmist sekan eða saklausan, burt séð frá því hver lögvernduð réttindi sakbornings séu. Mér finnst það svolítið sambærilegt. Ef þjóðin ákveður að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað á hún væntanlega að gera það, eða það hefði maður haldið.

Til að halda áfram með spurninguna velti ég fyrir mér með þetta fagfólk. Var það einhvern tímann eitthvert vandamál að finna fagfólk sem treysti sér til þess að vinna að hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli? Var það eitthvert vandamál á seinasta kjörtímabili?