143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru margar spurningar fyrir skamman tíma og ég svara ekki fyrir kosningaloforð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Varðandi orðheldni, ef það á nú að fara hér í einhverja túlkun og útlistun þá legg ég til að Sjálfstæðisflokkurinn haldi fund um málið í Valhöll og þar séu frummælendur Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, og Bjarni Benediktsson, núverandi formaður flokksins. Þeir geta þá tekist á um hvernig þeir sjálfstæðismenn sem greiddu flokknum atkvæði sitt þrátt fyrir snautlega niðurstöðu á landsfundi hafa túlkað þessi orð.

Varðandi það af hverju ekki hafi verið farið í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar lagt var í umsóknina má alveg velta fyrir sér hvort það hefði kannski verið rétt á sínum tíma. En staðan var þannig að það var einfaldlega engin umræða um það. Samfylkingin fór fram í sinni kosningabaráttu með mjög skýra stefnu um að aðildarviðræður væru forsenda þess að við færum í ríkisstjórn og krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu var ekki almenn úti í samfélaginu. Hún var hávær hér innan þings en það voru engar undirskriftasafnanir eða mótmæli eða skýr skilaboð frá kjósendum. Þarna voru kosningar nýafstaðnar.

Það er líka þannig varðandi aðildarviðræður, ég held að ég fari rétt með, a.m.k. veit ég ekki betur og hef nú spurst fyrir um málið, að það hefur aldrei tíðkast í neinu Evrópuríki að haldin væri þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja ætti um. Þetta var einfaldlega ekki í almennri umræðu nema hér í þinginu. En við sögðum að við vildum sækja um (Forseti hringir.) aðild og lofuðum því skýrt að sjálfsögðu að þegar samningur lægi fyrir yrði það þjóðin sem kvæði upp úr um málið og gæti (Forseti hringir.) tekið efnislega afstöðu.