143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki að spyrja að viðhorfi Sjálfstæðisflokksins til lýðræðis. Kúgaði meiri hluta Alþingis? Það voru þingmenn allra flokka, Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Borgarahreyfingarinnar eða Hreyfingarinnar, sem greiddu málinu atkvæði. Það var enginn meiri hluti kúgaður á Alþingi.

Varðandi hvað sé trúverðugt og hvað sé ótrúverðugt þá var það nú lengi vel stefna Framsóknarflokksins að sækja um aðild. Hæstv. fjármálaráðherra og núverandi hæstv. menntamálaráðherra skrifuðu greinar um að það væri nú kannski ástæða til að kanna aðildarviðræður. Ég sé ekki betur en að ný Evrópustefna ríkisstjórnarinnar beinist að því að auka samstarf við Evrópu. (Forseti hringir.) Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessir flokkar fari (Forseti hringir.) fyrir Íslands hönd í aðildarviðræður.