143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir mjög skelegga og fína ræðu. Það er gjarnan þannig, þegar hv. þingmaður tekur til máls, að þá hleypur manni kapp í kinn hér úti í sal og rýkur af stað. Af því að hv. þingmaður minntist á framgöngu Kópavogsbúa vil ég þakka hlý orð í garð okkar Kópavogsbúa og framsóknarmanna í Kópavogi. Það sýnir styrk félagshyggjusinnaðs miðjuflokks að eiga fólk með ólíkar skoðanir á þessu stóra máli. Ég trúi því að við værum ekki að eyða öllum þessum tíma í umræður og rökræður um þetta mál ef það væri ekki býsna flókið og hagsmunirnir ólíkir.

Mig langar að varpa spurningu til hv. þingmanns. Hún talaði um þinglega meðferð og svikin loforð í því samhengi og mig langar að taka fram að ég hef aldrei heyrt neinn af þeim hæstv. ráðherrum sem hv. þingmaður tiltók mæla gegn því að þjóðin hafi aðkomu að þessu máli heldur þvert á móti. Þá langar mig að spyrja í framhaldi af þessu: Er ekki þingleg meðferð eðlileg á þessu máli þó að hv. þingmaður sé vissulega ekki á sömu skoðun og hæstv. utanríkisráðherra sem ber þessa tillögu fram?

Hv. þingmaður talaði um siðað samfélag og því vil ég í öðru lagi spyrja: Er ekki rétt hjá mér að löggiltir endurskoðendur hafa ekki í árafjöld skrifað upp á reikninga sambandsins?