143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er umræða sem ég held að við þurfum einmitt að fara svolítið aftur í og aðeins dýpra, þ.e. umræðan um lýðræðisumbætur og sérstaklega um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú var samþykkt stjórnarskrárbreyting á seinasta þingi og þar áður um að hægt væri að breyta stjórnarskránni á miðju kjörtímabili án þess að slíta þingi. Gallinn er sá, sem ég er afskaplega hræddur við, að lágmarkið eða það hlutfall kosningarbærra manna í landinu sem þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna er 40% og ég tel það nær óhugsandi, og er reyndar reiðubúinn að fullyrða að sé óhugsandi.

Ég vona að það sé rangt hjá mér en ég er nokkuð viss í minni sök. Þess vegna hef ég svolitlar áhyggjur af því að slíkar stjórnarskrárbreytingar sem væru til þess að auka lýðræðið færu í gegnum slíkt ferli. Síðan mundi það klikka, væntanlega, þetta er ofboðslega hár þröskuldur. Ég ítreka að 40% af öllum kosningarbærum mönnum á landinu þyrftu að segja já, ekki 40% af þeim sem mæta á kjörstað heldur 40% af kosningarbærum mönnum á landinu. Ef þessi leið yrði farin til að breyta stjórnarskrá mundi það einfaldlega leggja ríkisstjórninni vopn í hendur, gera henni kleift að segja: Sko, sjáðu bara, þetta fór í þjóðaratkvæðagreiðslu en niðurstaðan er að þjóðin hefur greinilega engan áhuga á auknu lýðræði. Ég lít á þessa 40% leið sem hálfgerða sjálfseyðingarleið, að leggja fram tillögur sem eru dæmdar til að falla.

Burt séð frá því, nú fór ég út fyrir það sem ég ætlaði að spyrja: Telur hv. þingmaður að það geti verið gagn að því að hafa skýrt lögmæti jafnvel ef hæstv. ríkisstjórn telur sig óhæfa til að fara eftir vilja þjóðarinnar (Forseti hringir.) í málaflokknum og gera það faglega? Er samt ekki eitthvert gagn að því að hafa skýrt lögmæti úr opinberri þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu kosningar þannig að næsta ríkisstjórn skilji hvaða lögmæti liggur að baki ákvörðunum hennar?