143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ljóst að alveg skýr skilaboð frá þjóðinni til Alþingis eiga að vera leiðarljós, hvort sem er fyrir þessa ríkisstjórn eða þá sem kemur í framhaldinu. Mér finnst mikilvægt þegar kallað er eftir þjóðaratkvæðagreiðslu að ef spurningin er skýr og svörin eru skýr sé ekki annað til umræðu en að fylgja því eftir.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ákveðinn vandi með 40% ákvæðið, það er eitt af því sem náðist ekki betur í gegn á síðasta þingi, þetta skapar þá möguleika á að breyta stjórnarskrá núna, þótt ég telji ófært að binda sig við að þurfa fyrst að breyta stjórnarskrá. Ég tel það undanslátt að fara þá leið. Ég tel að draga eigi þá tillögu til baka sem hér liggur fyrir og er til umræðu, um að draga umsóknina til baka, við eigum að draga tillöguna til baka út úr þinginu. Við getum sameinast um þann hluta af henni að draga til baka. Hins vegar á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og hægt er. Það var ekki vilji fyrir því að ná því fyrir sveitarstjórnarkosningar þrátt fyrir ágæta viðleitni hv. þingmanna Pírata með stuðningi frá Samfylkingu og Bjartri framtíð. Það var ekki vilji fyrir því en það þýðir ekki að það megi ekki boða slíka þjóðaratkvæðagreiðslu með þriggja mánaða fyrirvara. Hún má alveg eins vera í haust, en því fyrr sem hún er ákveðin, þeim mun betra þannig að við getum lægt öldurnar og farið í málefnalega umræðu í undirbúningi fyrir þá atkvæðagreiðslu.

Ég tel að það eigi ekki að bíða eftir stjórnarskrárbreytingu til að slík tillaga komi fram.

Það er fullt af málum sem á eftir að upplýsa í þessu máli. Það er til dæmis mjög forvitnilegt, (Forseti hringir.) við áttum hér ágæta umræðu í gær í sambandi við þingsályktunartillöguna sem lögð var fram í upphafi og var mjög kröfuhörð um skilmála fyrir því að við gengjum í Evrópusambandið. Þrátt fyrir þá þingsályktunartillögu samþykktu 28 Evrópuríki, sem vissu öll um þingsályktunartillöguna, umsóknina. Við höfum aldrei fengið svör við spurningunni hvað það þýðir. Það eru svona hlutir sem eru óþolandi, að þjóðin skuli ekki fá tækifæri til að ræða og fá síðan svar áður en við förum að velja af eða á, (Forseti hringir.) hvort við viljum vera í Evrópusambandinu eða ekki. Þjóðin (Forseti hringir.) hefur alltaf síðasta orðið og það hefur alltaf verið stefna okkar, það hefur alltaf verið stefna mín. Við þingmenn förum ekki með þjóðina í Evrópusambandið, það gerir þjóðin sjálf.