143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Nú er áfram haldið að mótmæla því á Austurvelli að ríkisstjórnin ætli að slíta aðildarviðræðum við ESB og draga einhliða til baka umsóknina. Við höfum verið með hér í umfjöllun ekki bara þá tillögu, heldur líka tillögu frá þingflokki Vinstri grænna og tillögu frá öðrum flokkum eins og Samfylkingunni, Pírötum og Bjartri framtíð. Mig langar að heyra hvaða mun hv. þingmaður telur vera, í þessari stöðu, á tillögu okkar í Vinstri grænum og tillögu sem hún er flutningsmaður að, tillögum sem eiga að vera einhver millilending í þessu máli ef stjórnarflokkarnir ætla að hlusta á þjóð sína og taka eitthvert mark á því að krafan er að … (Gripið fram í: Ekki þeirra þjóð.) Nú heyrist kallað úti í sal að þjóðin sé ekki ríkisstjórnarflokkanna, en við erum þjóðin, öllsömul, er það ekki? En ef við ætlum að hlusta á þjóðina hvaða leið telur hv. þingmaður vera til sáttar?

Við í Vinstri grænum höfum lagt fram tillögu sem við teljum að sé vel hægt að lifa með miðað við það að við erum andstæðingar inngöngu í ESB, en viljum mæta lýðræðislegum vilja þjóðarinnar til að koma að þessu máli úr því sem komið er. Þetta er komið það langt að ekki er hægt að setja bara tappann í flöskuna því að hún mun springa í framhaldinu. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að tillaga (Forseti hringir.) okkar vinstri grænna gangi og hver er munurinn á ykkar tillögu og okkar?