143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að þetta er að hluta til ástæðan fyrir viðbrögðunum hér úti, en ég held að það spili líka stóra rullu, sérstaklega fyrir þá sem kusu stjórnarflokkana, að þeir sögðu fyrir kosningar: Við ætlum ekkert að fara út í þetta deilumál vegna þess að ef við komumst til valda verður það þjóðin sem fær að segja til um hvort eigi að halda áfram eða ekki. Ég held að þessi harkalegu viðbrögð séu líka vegna þess að þeir kjósendur voru sviknir um það. Ég held að undiraldan sé þung í þeirra röðum út af því.

Hins vegar held ég að við sem höfum lesið skýrslu utanríkisráðherra getum verið sammála um að hún er fínt plagg sem tekur stöðuna alveg ágætlega, en hún fer ekki mjög ítarlega í gegnum þá hagsmuni sem liggja undir. Hún bendir á skýrslu Seðlabankans varðandi gjaldeyrismálin sem er allt í lagi, en það þarf að svara betur spurningunni um hag fólksins í landinu og um hag fyrirtækjanna, hag launþega o.s.frv., sem ég geri ráð fyrir að skýrsla sem Alþjóðamálastofnun er að vinna fyrir aðila vinnumarkaðarins fari betur yfir. Mér finnst því mjög eðlilegt, og það sýnir virðingu fyrir öllum víddum málsins, að í það minnsta sé beðið eftir þeirri skýrslu og sú skýrsla fái umfjöllun hér og hún fái umfjöllun í nefndinni áður en þetta mál verður afgreitt.