143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hvar eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins? Þora ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ekki að koma til þessarar umræðu? Treysta ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sér ekki til að ræða þau loforð sem þeir hafa gefið kjósendum sínum fyrir kosningar í þeim efnum?

Í upphafi umræðunnar var óskað eftir nærveru þeirra af ræðumanni áður en hann hóf ræðu sína. Forseti ákvað að gera boð fyrir ráðherrana. Enginn þeirra kom meðan á ræðunni stóð.

Ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætla ekki að láta sjá sig við umræðuna legg ég til að hér í ræðustólinn verði heimilað að setja vídeóskjá þannig að það megi í fjarveru ráðherranna, sem er þó lögskylt að sækja fundi á Alþingi, spila myndbandsupptökur af því sem þeir höfðu um þetta mál að segja í kosningabaráttunni 2013. Ef það er ekki hægt væri betra að fá þá hér í holdinu og blóðinu til að ræða sín eigin orð. Þeir eru varla algerlega huglausir, virðulegur forseti.