143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú gott að heyra hv. þingmann taka fram að hún trúi ekki á aðild að Evrópusambandinu sem allsherjartöfralausn þó að ég ráði það nú engu að síður af máli hv. þingmanns að hún sé nokkuð áhugasöm um kosti aðildar.

Varðandi það að fara varlega í samanburð við t.d. ríkin á suðausturjaðri Evrópusambandsins þá er ég algjörlega sammála því. Það er almennt skynsamlegt að fara varlega í samanburð milli ólíkra landa og ég tala nú ekki um ef við ætlum að reyna að fara að bera eitthvað saman útkomu þeirra af því að hafa gengið í Evrópusambandið og svo möguleg áhrif á okkur.

Hv. þingmaður segir: Við skulum líta okkur nær til þeirra landa hér á norvesturjaðri Evrópusambandsins sem nær okkur eru og skyldari. En þá kemur merkileg staðreynd ljós. Það eru einmitt þau ríki mörg hver sem hafa haft mesta fyrirvara á því að ganga inn í Evrópusamrunann að fullu, Noregur hefur fellt það, Svíar hafa haldið sinni krónu, Danir hafa haldið sinni krónu með sitt sumarbústaðaákvæði, Bretar hafa sitt pund, (Gripið fram í.) Bretar eru ekki í Schengen og eru jafnvel á leiðinni til baka út aftur o.s.frv. (Forseti hringir.) Spurningin á móti til hv. þingmanns er þá kannski þessi: Segir þetta okkur einhverja sögu?