143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra umræðuefnið lít ég svo á að sú staðreynd að nokkur lönd á norðvesturjaðri Evrópusambandsins hafi valið að hafa vissa sérstöðu þrátt fyrir að taka þátt í samstarfinu eða vera aðilar endurspegli það að þegar maður fer aðeins fjær sjálfu meginlandinu þá byrja aðstæður að breytast og hagsmunir eru aðrir. Varðandi samanburð held ég að það sé ákaflega mikilvægt að menn geri ekki þau mistök að halda að með aðild að Evrópusambandinu verði menn einhvern veginn öðruvísi land.

Þegar ég var dálítið í Eystrasaltsríkjunum og þau voru að sækja um aðild, ákaflega áhugasöm, þá sögðu þau gjarnan: Já, við ætlum að verða eins og Írar. Sjáið þið hvað Írum hefur gengið vel eftir að þeir gengu í Evrópusambandið. Gott og vel, sagði ég, en þið verðið ekki að Írlandi með því að ganga í Evrópusambandið. Lettland breyttist ekki í Írland, hvað þá Lúxemborg eða Danmörku við það að ganga í Evrópusambandið. Það var áfram Lettland með sömu innviði og að mörgu leyti sömu veikleika og þeir áttu fyrir við að stríða.