143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni. Þetta minnir mig stundum á umræðuna hérna um að við ætlum að taka upp ný lög um fjárreiður ríkisins og þegar þau lög verða innleidd verði allt gott og þá verði hér agi og við förum að haga okkur einhvern veginn allt öðruvísi, sem mér finnst einmitt svolítið hæpin umræða vegna þess að við erum þrátt fyrir allt sama fólkið þótt við fáum nýja löggjöf. Þetta er því góður punktur.

Bara svo ég tali fyrir mig er það fyrst og fremst gjaldmiðillinn sem ég horfi á. Ég held að EES-samningurinn þjóni okkur bara ágætlega en við verðum að horfast í augu við að við erum með gjaldmiðil sem ekki er nothæfur og við verðum að finna einhverja aðra lausn. Annars stefnum við kannski bara í landflótta og unga fólkið hefur ekki áhuga á að vera hérna, vegna þess að það að búa hér áfram við gjaldeyrishöft er ekki boðlegt. Það grefur undan samfélaginu. Við finnum ekkert fyrir því dagsdaglega en það er mjög skaðlegt. Við verðum að finna einhverja lausn á gjaldmiðilsmálum og ég tel að þetta sé sigurstrangleg leið til þess.