143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að upplýsa inn í þetta samhengi að frumheimildin fyrir fréttinni er hinn merki færeyski fréttavefur Norðlýsið og þann miðil tel ég auðvitað miklu áreiðanlegri en hinn fjölmiðillinn sem var nefndur hér og borinn fyrir þessu á Íslandi.

Ég hrökk verulega við við þessa frétt þótt maður hefði heyrt örlítinn ávæning í þessa átt. Ég sé ekki annað en að þá sé komin upp verulega breytt staða og sérkennileg frá haustinu þegar Ísland og Evrópusambandið voru þó að reyna að leggja eitthvað á sig til að ná þessum málum saman. Það er reyndar ekki nýtt, búið að standa þannig frá haustinu 2012. Þetta hefur strandað meira á þeim aðilum sem eru núna hins vegar komnir í bandalag og skilja okkur eina eftir út undan.

Ég tek undir að ég held að það eigi alveg erindi inn í hvort sem er, en ekki síður þegar við erum hér að ræða tengsl okkar við Evrópusambandið, að fá þá á hreint hvað þarna hefur verið að gerast og fá skýringar á þessu ef rétt reynist, m.a. og ekki síst frá Evrópusambandinu. Auðvitað þurfum við eitthvað að ræða við frændur okkur Færeyinga líka, (Forseti hringir.) geri ég ráð fyrir, en Norðmenn koma okkur hvorki á óvart í þessu efni né öðrum.